Stjarnan tók á móti FH í fjörugum leik á Samsung vellinum í kvöld þar sem Stjarnan vann 4-3. Andrea Mist Pálsdóttir bar fyrirliðabandið í fjarveru Önnu Maríu Baldursdóttur og spilaði vel á miðjunni.
Lestu um leikinn: Stjarnan 4 - 3 FH
„Bara ótrúlega sætt og kærkomið. Kannski óþarfi að halda þessu svona spennandi undir lokin en þrjú stig eru stig og við erum mjög sáttar“ sagði Andrea eftir leik.
Fyrstu mínúturnar í leiknum voru hreint út sagt lygilegar en Stjarnan var komin í 4-1 eftir 16 mínútur. Aðspurð hvernig henni leið á þessum kafla segir hún „Ég leit á klukkuna og ég bara ,vá þetta er alveg eins og í Blikaleiknum þegar það voru þrjú mörk á fyrstu fimm mínútunum. Það er allavega frábært að byrja leikinn sterkt og setja inn mörk og þá getur maður aðeins skipulagt varnarleikinn betur og haldið því þegar maður er komin marki yfir.“
Stjörnukonur töpuðu illa fyrir Blikum, 5-1, í síðustu umferð en fá tækifæri til að bæta upp fyrir það strax í næsta leik í Mjólkurbikarnum. Aðspurð hvernig sá leikur leggst í liðið segir hún „Bara get ekki beðið, ég er að telja niður dagana.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.