fim 14. júní 2018 13:39
Ívan Guðjón Baldursson
Rússar svartsýnir - Vilja leggja landsliðið niður
Mynd: Getty Images
Rússar eru afar svartsýnir fyrir Heimsmeistaramótið á heimavelli og hafa næstum milljón skrifað undir beiðni um að landsliðið verði lagt niður áður en það niðurlægir þjóðina á heimavelli.

Rússar komust á HM 2014 í Brasilíu en komust ekki upp úr riðlinum eftir jafntefli við Alsír í lokaumferð riðlakeppninnar. Fabio Capello var kallaður þjófur og rekinn úr starfi, enda ekki talinn hæfur til að stýra Rússum á heimavelli.

Rússneska landsliðinu hefur þó ekki gengið sérlega vel eftir síðasta HM. Liðið komst á EM 2016 en endaði á botni riðilsins með eitt stig. Síðasti sigur Rússa kom í október 2017, 2-0 sigur gegn Suður-Kóreu þar sem bæði mörkin voru sjálfsmörk.

Útlitið er langt frá því að vera bjart svo Rússar hafa ákveðið að taka til sinna eigin ráða. Ivan Urgant, sjónvarpskynnir í Rússlandi, safnaði yfirvaraskeggi eins og Stanislav Cherchesov, þjálfari Rússa, og hvatti aðra Rússa til þess að gera slíkt hið sama til að hjálpa liðinu. Margir hafa þegar svarað kallinu og birt myndir á Twitter.

Á sama tíma hafa næstum milljón manns skrifað undir beiðni þess efnis að rússneska landsliðið verði lagt niður. Beiðnin er rafræn, hjá Change.org.

Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að ekki nema 4% Rússa telur liðið geta komist upp úr HM riðlinum, þar sem heimamenn mæta Egyptalandi, Úrúgvæ og Sádí-Arabíu.

Rússar mæta Sádí-Arabíu í opnunarleik HM í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner