mán 14. nóvember 2016 18:00
Magnús Már Einarsson
Malta
Flóðljósaframleiðandi spilar gegn Íslandi á morgun
Icelandair
Clayton Failla (til hægri) starfar við að búa til flóðljós.  Hér er hann í baráttu við Matteo Darmian í leik gegn Ítalíu í fyrra.  Ítalía vann þann leik 1-0.
Clayton Failla (til hægri) starfar við að búa til flóðljós. Hér er hann í baráttu við Matteo Darmian í leik gegn Ítalíu í fyrra. Ítalía vann þann leik 1-0.
Mynd: Getty Images
Michael Mifsud er markahæsti leikmaður Möltu frá upphafi.
Michael Mifsud er markahæsti leikmaður Möltu frá upphafi.
Mynd: Getty Images
Andew Hogg, markvörður Möltu, er öflugur.
Andew Hogg, markvörður Möltu, er öflugur.
Mynd: Getty Images
Pietro Ghedin þjálfari Möltu.
Pietro Ghedin þjálfari Möltu.
Mynd: Getty Images
Maltverjar, andstæðingar Íslands í vináttuleik annað kvöld, sitja í 178. sæti á heimslista FIFA í augnablikinu. Atvinnumönnum í landsliðinu hefur farið fjölgandi undanfarin ár en í hópnum eru samt sem áður leikmenn sem vinna meðfram fótboltanum.

Þar á meðal er varnarmaðurinn Clayton Failla en hann vaknar alla morgna klukkan 5 til að hefja störf í verksmiðju sem framleiðir flóðljós. Failla spilar með Hibernians í úrvalsdeildinni á Möltu en hann er í hópnum sem mætir Íslandi á morgun.

Roderick Briffa, fyrirliði Maltverja, verður ekki með í leiknum á morgun eftir að hafa slitið krossband fyrr á árinu. Briffa er einn besti leikmaðurinn í sögu Möltu en hann starfar hjá knattspyrnusambandinu. Hann var að störfum á Ta' Qali leikvanginum þegar íslenska landsliðið æfði þar í morgun.

Einungis fimm leikmenn í hópnum gegn Íslendingum hafa skorað mark með landsliðinu. Langmarkahæsti leikmaðurinn er hinn 35 ára gamli Michael Mifsud en hann hefur leitt sóknarlínuna í áraraðir. Mifsud hefur skorað 40 mörk í 121 leik með landsliði Möltu en hann var á mála hjá Coventry og Barnsley á sínum tíma.

Næstmarkahæstur í hópnum er Alfred Effiong með 4 mörk í 15 leikjum. Effiong er 31 árs gamall Nígeríumaður en hann fékk maltneskan ríkisborgararétt í fyrra og hóf þá að spila með liðinu.

Einn besti leikmaðurinn í hópnum hjá Möltu er markvörðurinn Andrew Hogg sem spilar með Hibernians í heimalandinu. Hogg er atvinnumaður en hann lék áður í Grikklandi. Mögnuð frammistaða hans í 2-0 tapi gegn Englandi í síðasta mánuði vakti athygli.

André Schembri (Boavista í Portúgal), Luke Gambin (Barnet á Englandi) og Sam Magri (Dover á Englandi) eru einu leikmennirnir í leikmannahópi Möltu sem spila ekki í úrvalsdeildinni í heimalandi sínu.

Hinn ítalski Pietro Ghedin hefur þjálfað landslið Möltu frá því árið 2012. Hann var áður aðstoðarþjálfari ítaska landsliðsins og síðar þjálfari kvennalandsliðsins í heimalandi sínu. Ghedin hefur einblínt á varnarleikinn hjá Möltu en hann spilar með fimm manna vörn hjá liðinu.

Úrslit í landsleikjum Möltu á árinu
Malta 0 - 0 Moldavía
Tékkland 6 - 0 Malta
Austurríki 2 - 1 Malta
Eistland 1 - 1 Malta
Malta 1 - 5 Skotland
England 2 - 0 Malta
Litháen 2 - 0 Malta
Malta 0 - 1 Slóvenía

Sonur Maldini spilar á Möltu
Talsvert er um erlenda leikmenn í úrvalsdeildinni á Möltu en meðal annars eru nokkrir leikmenn frá Brasilíu og Nígeríu þar. Leikmenn í deildinni eru ýmist atvinnumenn eða hálf atvinnumenn.

Christian Maldini, tvítugur sonur varnarjaxlins Paolo Maldini spilar með Hamran Spartans. Ítalski framherjinn Fabrizio Miccoli spilaði með Birkirkara í fyrra en hann lék áður með Juventus og Fiorentina.

Billy Berntsson, sem spilaði með Val í Pepsi-deildinni 2014, lék með Qormi á Möltu á síðasta tímabili. Á dögunum samdi Johnatan P. Alessandro Lama við Pembroke Athleta FC í urvalsdeildinni á Möltu. Lama var á mála hjá Hugin í sumar en hann var aðallega varamaður hjá liðinu í Inkasso-deildinni.

Deildarkeppnin á Möltu hefst í ágúst og lýkur í byrjun maí. 12 lið eru í úrvalsdeildinni og leikin er þreföld umferð. Valletta, Hibernians og Birkirkara eru stærstu liðin en þegar þau hafa mæst í stórleikjum undir lok móts hafa allt að tíu þúsund áhorfendur mætt á þá leiki.

Í kringum 5000 áhorfendur mættu á landsleik Möltu og Slóveníu á föstudaginn en búist er við svipuðum fjölda á áhorfendapöllunum gegn Íslandi annað kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner