mán 15. janúar 2018 15:30
Magnús Már Einarsson
Helgi Valur frá Portúgal í Árbæinn - „Konan ýtti mér út í þetta"
Helgi Valur spilaði síðast með Fylki árið 2005.
Helgi Valur spilaði síðast með Fylki árið 2005.
Mynd: Boltamyndir
Helgi á 33 landsleiki að baki.
Helgi á 33 landsleiki að baki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrrum landsliðsmaðurinn Helgi Valur Daníelsson hefur ákveðið að taka skóna af hillunni og leika með uppeldisfélagi sínu Fylki í Pepsi-deildinni í sumar. Helgi býr í Portúgal ásamt fjölskyldu sinni en hann ætlar að vera á Íslandi í sumar til að leika með Fylki.

„Ég fer með liðinu í æfingaferð í apríl og svo verð ég heima út tímabilið. Fjölskyldan verður aðeins hér (í Portúgal) áfram. Stelpurnar mínar eru að klára skóla og taka svo sumarfríið heima. Eftir tímabilið sjáum við til hvað gerist. Við erum ekki beint flutt heim og ég veit ekki hvað gerist eftir sumarið," sagði Helgi Valur við Fótbolta.net í dag.

„Konan mín er mjög skilningsrík og hún ýtti mér út í þetta. Hún vill endilega að ég taki allavega eitt tímabil í viðbót. Ég er spenntur fyrir þessu. Ég endaði ferilinn ekki skemmtilega þegar ég hætti og það er gaman að fá annan séns og spila eitt tímabil í viðbót."

Ræddi við Fylki í fyrra
Helgi Valur er 36 ára gamall en hann hefur starfað undanfarið eitt og hálft ár hjá eiturlyfjaeftirliti Evrópu í Lisabon. Fyrir síðasta tímabil íhugaði Helgi að taka slaginn með Fylki en vinnan kom í veg fyrir það.

„Við spjölluðum aðeins um þetta fyrir síðasta tímabil líka og ég hafði áhuga á þá. Ég endaði hins vegar á að vera í vinnu úti allt sumarið og við hættum við þetta þá. Ég var að hætta í vinnunni í nóvember og hef verið að leita mér að einhverju nýju. Það kom möguleiki á að spila núna. Ég fór heim um jólin og spjallaði við Fylki og við ákváðum að kýla á þetta."

Rétt ákvörðun að hætta árið 2015
Helgi Valur spilaði lengi erlendis en hann var á mála hjá en á ferli sínum í atvinnumennsku erlendis spilaði hann með Peterborough, Öster, Elfsborg, Hans Rostock, AIK, Belenenses og AGF.

„Ég hætti af því að ég var alveg búinn á því og það var hárrétt ákvörðun held ég. Ég snerti ekki fótbolta í tvö ár eftir að ég hætti. Ég fór í nám og fékk síðan vinnu," sagði Helgi sem prófaði að æfa fótbolta á nýjan leik fyrir áramót.

„Ég er í ágætis almennu formi en ég hef ekki spilað mikið fótbolta. Ég æfði aðeins í október og nóvember með liði hérna úti og það tekur tíma að komast í fótboltastand. Ég tel samt að ég sé í
ágætis standi miðað við aldur."


Spenntur fyrir liðinu
Fylkir vann Inkasso-deildina í fyrra en nánast allir leikmenn í hópnum eru uppaldir Árbæingar.

„Mér líst mjög vel á þetta. Ég talaði við þjálfarana Helga og Óla Stígs núna um jólin og þeir hafa trú á strákunum. Það var sterkt að halda bestu leikmönnunum fyrir Inkasso í fyrra og tímabilið þá var gott. Strákarnir eru orðnir ári eldri og svo koma kannski nýir menn inn líka. Mér finnst mjög sterkt og mikilvægt að það sé verið að byggja þetta á strákum úr Árbænum. Meistaraflokksráðið og allir í kringum þetta eru strákar sem ég ólst upp með í Árbænum og það er góð stemning í kringum þetta allt."

Athugasemdir
banner
banner
banner