mán 15. febrúar 2016 10:46
Magnús Már Einarsson
KR hefur fengið nokkur tilboð í Gary Martin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR-ingar hafa fengið nokkur tilboð í framherjann Gary Martin að undanförnu en þetta staðfesti Baldur Stefánsson varaformaður knattspyrnudeildar KR í samtali við Fótbolta.net í dag.

Eins og Fótbolti.net hefur greint frá þá hafa Breiðablik og Víkingur R. lagt fram tilboð í Gary. Einnig hefur verið orðrómur um að FH og Valur hafi áhuga á honum.

„Það eru nokkur tilboð komin á borðið. Gary er frábær leikmaður og margir hafa sýnt honum áhuga," sagði Baldur.

„Það fylgir þessu ákveðið rót meðan öll þessi lið eru að senda okkur tövupósta og áður en maður er búnin að lesa þá sjálfur þá les maður um það í blöðunum."

„Við höllum okkur aftur og skoðum það sem er í gangi. Við erum að fara út til Florida á morgun í tvær vikur. Ég á ekki von á að það gerist neitt næsta sólarhringinn," sagið Baldur en hann reiknar með að Gary fari með KR-ingum til Bandaríkjanna á morgun.

Gary spilaði ekki með KR í 1-1 jafntefli gegn Haukum í gær en Baldur segir að það tengist tilboðunum ekki.

„Það tengdist því ekkert. Bjarni (Guðjónsson, þjálfari KR) hefur verið að prófa mikið af þessum ungu og efnilegu strákum og það hélt áfram í gær," sagði Baldur.
Athugasemdir
banner
banner