Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 15. apríl 2016 13:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net - 10. sæti: ÍA
Lykilmennirnir tveir.
Lykilmennirnir tveir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Árni Snær Ólafsson.
Markvörðurinn Árni Snær Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórður Þorsteinn Þórðarson.
Þórður Þorsteinn Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Már Guðjónsson.
Arnar Már Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Marteinsson.
Ásgeir Marteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Skagamenn verði í fallbaráttu í Pepsi-deildinni í sumar en haldi þó sæti sínu. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. ÍA endar í 10. sæti.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.ÍA 26 stig
11 Víkingur Ólafsvík 24 stig
12. Þróttur 14 stig

Um liðið: Skagamenn dreymir um að komast á fyrri stall í íslenska fótboltanum og margir telja að þeir séu á réttri leið þó þolinmæði þurfi að sýna. Róm var ekki byggð á einum degi og allt það. Sjöunda sætið var niðurstaðan í fyrra eftir að liðinu hafði verið spáð falli fyrir mótið. Ungir leikmenn hafa verið að fá tækifærið í vetur en liðið hefur ekki mikið verið í sviðsljósinu enda haft frekar hægt um sig á leikmannamarkaðinum.

Þjálfari - Gunnlaugur Jónsson: Klárlega einn af þjálfurum ársins í fyrra. Hægt er að segja að hann hafi náð öllu út úr Skagaliðinu sem hægt var. Liðið var nýliði í deildinni og endaði talsvert ofar en spáð hafði verið. Gunnlaugur náði að kortleggja „úrslitaleikina" gegn liðunum í neðri hlutanum meistaralega og Skagamenn sóttu sín stig aðallega úr þeim viðureignum.

Styrkleikar: Seint verður sagt að leikstíll Skagamanna sé fallegur en árangursríkur er hann. Ekkert lið átti eins margar langar spyrnur og ÍA síðasta sumar en það virkaði. Leikmenn þekkja sín takmörk alveg fullkomlega og eru tilbúnir að berjast fyrir þeim stigum sem í boði er. Með eina allra bestu „níu" deildarinnar í Garðari Gunnlaugssyni.

Veikleikar: Það er oft talað um að annað árið sé erfiðara fyrir lið sem koma upp. Skagamenn hafa lítið styrkt sig frá síðasta tímabili og það gæti orðið þeim að falli. Skagamenn eru háðir því að Ármann Smári Björnsson, Garðar og Árni Snær Ólafsson markvörður eigi aftur topp tímabil líkt og þeir náðu í fyrra. Sóknarleikurinn gæti verið einhæfur og lesinn af andstæðingunum.

Lykilmenn: Ármann Smári og Garðar Gunnlaugsson. Tveir reynslumiklir menn. Ármann er turn í vörninni sem hirðir flest allt í loftinu. Er orðinn 35 ára og mikilvægt fyrir ÍA að enn sé slatti eftir á tanknum hjá honum. Garðar var valinn í landsliðshóp í janúarverkefni og skoraði níu mörk í Pepsi-deildinni í fyrra.

Gaman að fylgjast með: Steinar Þorsteinsson er einn af ungu strákunum sem hafa verið að stíga upp hjá Skaganum og gæti hann látið kveða að sér í Pepsi-deildinni í sumar. Sóknarleikmaður fæddur 1997 sem skoraði í vetur þrennu gegn Stjörnunni í bronsleik Fótbolta.net mótsins.

Spurningamerkið: Skagamenn fengu norska sóknarmanninn Martin Hummervoll lánaðan frá Viking í Stafangri. Hummervoll skoraði þrjú mörk í níu leikjum fyrir Keflavík í fyrra og sýndi lofandi tilþrif en er enn óskrifað blað í deildinni. Er hann maðurinn sem ÍA vantaði?

Völlurinn: Þegar maður kemur á Akranesvöll myndast ávallt nostalgíutilfinning enda risaleikir í sögu íslenska boltans þar farið fram. Það er alltaf gaman að kíkja á völlinn á Skaganum en sérstaklega þegar sólin skín og maður getur legið í brekkunni. Enda margir heimamenn sem taka brekkuna alltaf fram yfir stúkuna þó ágæt sé.



Stuðningsmaðurinn segir - Brynjólfur Þór Guðmundsson
„Helstu styrkleikar Skagaliðsins eru að það hélt öllum þeim mannskap frá fyrra ári sem við þurftum að halda í og annað árið í röð eru að koma upp ungir strákar sem gætu látið til sín taka. Í fyrra urðu Þórður Þ. Þórðarson og Albert Hafsteinsson fastamenn í byrjunarliði. Það er sennilega of mikið að vonast til álíka í ár en strákar eins og Arnór Sigurðsson, Steinar Þorsteinsson, Stefán Teitur Þórðarson og Aron Ingi Kristinsson eru meðal þeirra sem gætu spriklað með meistaraflokki í sumar. Tryggvi Haraldsson er efnilegur en brothættur.

Veikleikinn er sá að styrkingin utan frá hefur verið með minnsta móti. Lengi vel var endurkoma Andra Geirs Alexanderssonar stærsta og reyndar eina viðbótin. Martin Hummervoll kom sprækur inn í dauðadæmt Keflavíkurlið í fyrra og gæti staðið sig vel. (Hér trúum við því ekki að menn séu óheillakrákur sem felli hvert liðið á fætur öðru.)

Kannski er spáin um tíunda sæti ekki óraunhæf. ÍA þarf að gera eins og í fyrra, vinna heima og heiman gegn þeim þremur liðum sem verða í hvað mestri fallbaráttu. Takist það vantar ekki mikið upp á að liðið verði í ágætri stöðu. Þetta gæti orðið erfiðara ár en í fyrra og raunhæft að stefna á áttunda til tíunda sæti, ofar ef lykilmenn sleppa við meiðsli og ungir strákar blómstra. En það gæti líka lagt grunninn að mjög góðu ári 2017. Í fyrra efldist liðið eftir því sem á leið. Vonandi verður framhald á því."


Sjá einnig:
Líklegt byrjunarlið ÍA
Garðar Gunnlaugs: Er með háleitar kröfur
Gulli Jóns: Fólk á Akranesi vill þetta

Komnir:
Andri Geir Alexandersson frá HK
Martin Hummervoll frá Viking á láni

Farnir:
Arsenij Buinckij
Ingimar Elí Hlynsson í HK
Marko Andelkovic
Teitur Pétursson í HK

Leikmenn ÍA sumarið 2016:
Páll Gísli Jónsson - 1
Arnór Snær Guðmundsson - 4
Ármann Smári Björnsson - 5
Martin Hummervoll - 7
Hallur Flosason - 8
Garðar Gunnlaugsson - 9
Jón Vilhelm Ákason- 10
Arnar Már Guðjónsson - 11
Árni Snær Ólafsson - 12
Ólafur Valur Valdimarsson - 14
Hafþór Pétursson - 15
Þórður Þ. Þórðarson - 16
Tryggvi Haraldsson - 17
Albert Hafsteinsson - 18
Eggert Kári Karlsson - 19
Gylfi Veigar Gylfason - 20
Arnór Sigurðsson - 21
Steinar Þorsteinsson - 22
Ásgeir Marteinsson - 23
Andri Geir Alexandersson - 25
Darren Lough - 27
Aron Ingi Kristinsson - 28
Guðmundur Sigurbjörnsson - 30
Stefán Teitur Þórðarsson - 31

Leikir ÍA 2016:
1. maí ÍBV - ÍA
8. maí FH - ÍA
12. maí ÍA - Fjölnir
16. maí Víkingur Ó. - ÍA
21. maí ÍA - Fylkir
29. maí Víkingur R. - ÍA
5. júní ÍA - Þróttur
23. júní KR - ÍA
29. júní ÍA - Stjarnan
10. júlí Breiðablik - ÍA
17. júlí ÍA - Valur
24. júlí ÍA - ÍBV
3. ágúst ÍA - FH
7. ágúst Fjölnir - ÍA
15. ágúst ÍA - Víkingur Ó.
22. ágúst Fylkir - ÍA
28. ágúst ÍA - Víkingur R.
11. sept Þróttur - ÍA
15. sept ÍA - KR
19. sept Stjarnan - ÍA
25. sept ÍA - Breiðablik
1. okt Valur - ÍA

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson, Jóhann Ingi Hafþórsson, Magnús Már Einarsson og Magnús Þór Jónsson.
Athugasemdir
banner
banner