Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 15. október 2017 08:55
Elvar Geir Magnússon
Heimild: mbl.is 
Geir segist ekki hafa farið á bak við Heimi: Ráðlegg honum að koma fram af auðmýkt
Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, hefur ritað pistil og sent mbl.is þar sem hann svarar ummælum landsliðsþjálfarans Heimis Hallgrímssonar sem telur að Geir hafi farið á bak við sig.

Heimir sagði í viðtali við 433 og DV að hann hefði íhugað að hætta sem landsliðsþjálfari Íslands eftir EM ef KSÍ hefði framlengt samning sinn við Lars Lagerback.

Hann segist telja að Geir hafi farið á bak við sig með því að ræða við Lagerback um að halda áfram.

„Í viðtali í DV seg­ir Heim­ir að ég hafi farið á bak við sig í störf­um mín­um fyr­ir KSÍ. Þetta er rangt," segir Geir í pistlinum á mbl en hann er augljóslega ekki sáttur við orð landsliðsþjálfarans.

„Ég lít stolt­ur til baka og minn­ist þess þegar ég hafði sam­band við Heimi Hall­gríms­son knatt­spyrnuþjálf­ara og bauð hon­um að koma til starfa fyr­ir KSÍ. Þá hafði eng­inn – ég ít­reka eng­inn – stungið upp á Heimi til þeirra starfa fyr­ir KSÍ. Ég sá að þar fór sómamaður, efni­leg­ur og metnaðarfull­ur þjálf­ari."

„Í störf­um mín­um inn­an knatt­spyrnu­hreyf­ing­ar­inn­ar kom ég ávallt fram af heiðarleika. Hið rétta er að KSÍ samdi við Heimi um að taka við landsliðinu að lok­inni úr­slita­keppni EM 2016. Ekk­ert í þeim samn­ingi kom í veg fyr­ir að ég ræddi við Lars Lag­er­bäck um hvort hann hefði áhuga á að halda áfram eft­ir úr­slita­keppni EM 2016. KSÍ bar ekki að leita samþykk­is Heim­is en ég gerði mér fylli­lega grein fyr­ir því hver vilji hans var enda skjalfast. Áhugi KSÍ að hafa Lars áfram í starfi kom fram á op­in­ber­um vett­vangi og var öll­um ljós. Aldrei kom til samn­ingsviðræðna við Lars því hann ákvað að láta staðar numið," segir Geir.

„Ræða má ef og hefði. Ef Lars hefði viljað halda áfram, hefði KSÍ orðið að óska eft­ir breyt­ing­um á samn­ingi sín­um við Heimi ella greiða um­samd­ar bæt­ur. Til þess kom hins veg­ar aldrei og KSÍ hef­ur í einu og öllu staðið við sinn samn­ing við Heimi. Rétt er að Heim­ir var ósátt­ur við þessa at­b­urðarás og tjáði mér það. Hins veg­ar er það svo að stjórn­un KSÍ er í hönd­um stjórn­ar og ársþings. Oft er reynt að verða við ósk­um þjálf­ara landsliða en það er engu að síður stjórn KSÍ sem gæt­ir heild­ar­hags­muna sam­bands­ins."

„Það að Heim­ir hafi verið ósátt­ur við mín vinnu­brögð í þessu máli skil ég – en ég fór að vilja KSÍ í mál­inu og á bakvið Heimi fór ég aldrei. Mitt ráð til hans og þeirra sem njóta nú þess mikla af­reks að Ísland er komið á HM, er að koma fram af auðmýkt og þakk­læti. Við stönd­um nú öll á öxl­um risa sem eru störf og af­rek þeirra sem á und­an okk­ur gengu í knatt­spyrnu­hreyf­ing­unni.“

Í pistlinum óskar hann leikmönnum, þjálfurum og öllum sem lögðu hönd á plóg við að koma Íslandi á HM til hamingju með árangurinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner