fös 15. desember 2017 20:00
Ingólfur Stefánsson
Silva hefur ekki áhyggjur af slæmu gengi
Mynd: Getty Images
Marco Silva þjálfari Watford hefur ekki áhyggjur af slæmu gengi liðsins í síðustu leikjum. Hann vill frekar einbeita sér að tímabilinu í heild.

Watford hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum. Eina stigið sem þeir hafa fengið úr þessum fjórum leikjum var í jafntefli gegn Tottenham 2. desember.

Mikil meiðsli eru í leikmannahópi Watford en alls 10 leikmenn eru frá í augnablikinu vegna meiðsla. Silva er þó bjartsýnn fyrir leikinn gegn Huddersfield á morgun.

„Ég hef meiri áhuga á tímabilinu öllu heldur en að hugsa um einn og einn leik. Ef við tölum um hvað mörgum stigum við höfum safnað á tímabilinu erum við að ná okkar markmiðum."

„Maður getur unnið leiki, tapað leikjum og gert jafntefli. Við tökum áhættur og reynum að vinna alla leiki en við getum ekki unnið þá alla. Við reynum að minnsta kosti."


Silva vill ekki nota meiðslalista Watford sem afsökun.

„Auðvitað er best þegar allir eru heilir en það er ekki staðan núna og það er mitt starf að finna lausn á því."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner