þri 16. janúar 2018 12:08
Elvar Geir Magnússon
Álasund fær Hólmbert (Staðfest)
Hólmbert hefur yfirgefið Stjörnunar.
Hólmbert hefur yfirgefið Stjörnunar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmbert í leik gegn KR.
Hólmbert í leik gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Álasund hefur keypt sóknarmanninn Hólmbert Aron Friðjónsson frá Stjörnunni. Hann hefur staðist læknisskoðun hjá norska félaginu og gert þriggja ára samning.

Álasund féll úr norsku úrvalsdeildinni í fyrra en hjá félaginu eru þrír aðrir Íslendingar; Daníel Leó Grétarsson, Adam Örn Arnarson og Aron Elís Þrándarson.

Hólmbert kom til Stjörnunnar að láni frá KR í ágúst 2016 en Garðabæjarliðið keypti leikmanninn að loknu keppnistímabilinu. Hólmbert spilaði 34 leiki fyrir Stjörnuna og skoraði í þeim 13 mörk.

„Knattspyrnudeild Stjörnunnar sendir Hólmberti sýnar bestu kveðjur og óskar honum góðs gengis á nýjum vettvangi. Hólmbert, takk fyrir okkur!" stendur á Facebook svæði Stjörnunnar.

Lars Bohinen, þjálfari Álasunds, var hjá Sandefjord og reyndi að fá Hólmbert þangað í fyrra. Eftir að hann tók við nýju liði lagði hann mikla áherslu á að fá Íslendinginn í sinn hóp.

Hólmbert er 24 ára og er uppalinn hjá HK en fór síðan til Fram þar sem hann varð bikarmeistari. Hann hefur reynslu frá atvinnumennsku og var á sínum tíma hjá Celtic í Skotlandi og Bröndby í Danmörku.

„Hann er stór og við þurftum þannig leikmann í hópinn. Hólmbert býr yfir miklum hæfileikum og það var engin tilviljun að hann var hjá Celtic og Bröndby," segir Bohinen.

Hólmbert segir við heimasíðu norska félagsins að hann vonist til þess að hann geti hjálpað því að komast aftur upp í efstu deild sem fyrst.

Stjarnan, sem hafnaði í öðru sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra, krækti í Guðmund Stein Hafsteinsson þegar félagið vissi að Hólmbert væri líklega á förum.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner