þri 16. janúar 2018 13:49
Elvar Geir Magnússon
Conte veit ekki hvort Chelsea sé að reyna að fá Sanchez - „Held ekki"
Antonio Conte, stjóri Chelsea.
Antonio Conte, stjóri Chelsea.
Mynd: Getty Images
Chelsea mætir Norwich í bikarnum á morgun og í tilefni þess sat Antonio Conte, stjóri Chelsea, fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Það var þó afar lítið rætt um leikinn sjálfan.

Conte var spurður út í Alexis Sanchez sem virðist á förum frá Arsenal. Manchester United er talið í bílstjórasætinu í baráttunni um Sílemanninn en í gær var sagt að Chelsea hefði blandað sér í leikinn.

Er Chelsea að reyna að fá Sanchez?

„Ég veit það ekki, ég held ekki," svaraði Conte.

En ætti Chelsea að reyna að fá hann?

„Þegar kemur að félagaskiptamarkaðnum kýs ég frekar að ræða við stjórnina og segja mitt álit. Ég vil ekki segja mína skoðun á þessu."

Ertu ánægður með hópinn?

„Ég reyni að vinna með mínum leikmönnum og ég er mjög ánægður með að vinna með þeim. Við erum að reyna að búa til eitthvað mikilvægt fyrir þetta félag. Mikilvægast er að reyna að bæta þá leikmenn sem við höfum," segir Conte.

Síðustu leikir Chelsea hafa endað með markalausu jafntefli og viðurkennir Conte að markaskorun sé vandamál.

„Við erum ekki að fá á okkur mörk en slæmu fréttirnar eru þær að við erum ekki að skora. Allir eru að skora minna en á síðasta tímabili."

Eftir öfluga byrjun hefur hægst á Alvaro Morata og hann fengið talsverða gagnrýni.

„Þegar þú ert sóknarmaður sem hefur ekki skorað í einhvern tíma ertu pirraður. Hann þarf að halda áfram sinni vinnu. Þjálfarinn treystir honum og liðsfélagarnir treysta honum," segir Conte.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner