Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 16. janúar 2018 14:00
Magnús Már Einarsson
Dómarinn í bann - Biðst afsökunar á að hafa sparkað í leikmann
Tony Chapron rekur Mario Balotelli af velli á síðasta tímabili.
Tony Chapron rekur Mario Balotelli af velli á síðasta tímabili.
Mynd: Getty Images
Franski dómarinn Tony Chapron hefur verið settur í tímabundið bann eftir að hann sparkaði í Diego Carlos, leikmann Nantes, í leik gegn PSG í fyrradag.

Diego Carlos, varnarmaður Nantes, var að spretta til baka og hljóp, að því er virðist óvart, utan í Chapron dómara sem féll til jarðar í kjölfarið eins og sjá má í myndbandinu neðst í fréttinni.

Chapron brást ókvæða við og sparkaði í áttina að Carlos. Þegar þeir voru svo báðir komnir á fætur fékk Carlos að líta rauða spjaldið frá Chapron.

Hinn 45 ára gamli Chapron átti að dæma leik Angers og Troyes á morgun en hann mun ekki gera það. Chapron er kominn í tímabundið bann hjá dómaranefnd franska knattspyrnusambandsins.

Búið er að draga rauða spjaldið hjá Carlos til baka en í gær kallaði Waldemar Kita, forseti Nantes, eftir því að Chapron fari í hálfs árs bann.

Sjálfur hefur Chapron beðist afsökunar á hegðun sinni en óvíst er hversu mikla refsingu hann fær. Chapron ætlar að leggja flautuna á hilluna eftir tímabilið en spurning er hvort hann fái fleiri leiki í vetur.

„Ég vil biðja Diego Carlos afsökunar. Í leiknum lenti ég í samstuði við Diego Carlos. Við það fann ég mikinn sársauka vegna meiðsla sem ég hef verið að glíma við og það varð til þess að ég fór með fótinn í leikmanninn," sagði Chapron.





Athugasemdir
banner