Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 16. mars 2018 15:30
Magnús Már Einarsson
Trausti ekki áfram hjá Víkingi R.
Trausti í leik með Víkingi í gær.
Trausti í leik með Víkingi í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markvörðurinn Trausti Sigurbjörnsson er farinn frá Víkingi R. eftir nokkra mánaða dvöl hjá félaginu.

Trausti hefur varið mark Víkings í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum en nú er ljóst að hann tekur ekki slaginn með liðinu í sumar. Trausti var í fyrra á mála hjá Haukum en þar áður lék hann með Þrótti R.

Í vetur gerði Trausti stuttan samning við Víking og ekki náðist samkomulag um framhaldið.

„Ég vil þakka fyrir tímann í Víkingi og sérstaklega Hajrudin Cardaklija markmannsþjálfara sem vann flott starf að koma mér aftur á ról eftir erfið meiðsli," sagði Trausti við Fótbolta.net í dag.

„Núna tekur bara við leit að klúbb til að spila með í sumar og núna er ég bara kominn í bið við símann."

Markmannsmálin eru í óvissu í Fossvoginum fyrir sumarið en Róbert Örn Óskarsson missir að minnsta kosti af byrjun tímabils vegna meiðsla.

Senegalski markvörðurinn Serigne Mor Mbay var á reynslu hjá Víkingi á dögunum en ekki hefur verið tilkynnt hvort hann semji við félagið eða ekki.

Í 3-0 tapinu gegn ÍA í Lengjubikarnum á miðvikudaginn var hinn ungi Emil Andri Auðunsson í markinu en hann er ennþá á miðári í 2. flokki.
Athugasemdir
banner