mán 16. apríl 2018 20:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Stoke varð af mikilvægum stigum
Mynd: Getty Images
Crouch skoraði fyrir Stoke en það var ekki nóg.
Crouch skoraði fyrir Stoke en það var ekki nóg.
Mynd: Getty Images
West Ham 1 - 1 Stoke City
0-1 Peter Crouch ('79 )
1-1 Andrew Carroll ('90 )

Stoke City varð af mikilvægum stigum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Stoke kastaði frá sér sigrinum gegn West Ham í uppbótartíma en liðið þurfti nauðsynlega á sigri að halda.

Fyrir leikinn í kvöld var West Ham í 15. sæti, sex stigum fyrir ofan fallsæti. Stoke var hinsvegar í 19. sæti, sex stigum fyrir neðan öruggt sæti. Stoke hefði helst þurft að vinna í kvöld til að eiga von um að halda sæti sínu í deild þeirra bestu.

Dramatíkin mikil
Fyrri hálfleikurinn var frekar jafn en þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan markalaus.

Fyrsta mark leiksins kom á 79. mínútu en þar var að verki reynsluboltinn skemmtilegi Peter Crouch. Hann fylgdi á eftir skoti Xherdan Shaqiri sem Joe Hart hafði varið. Hart varði boltann beint fyrir fætur Crouch sem var fljótur að átta sig.

Áður en Stoke skoraði höfðu tvö mörk verið dæmd af West Ham en heimamenn skoruðu loksins löglegt mark í uppbótartímanum. Það skoraði Andy Carroll eftir sendingu Aaron Cresswell. Markið hjá Carroll var mjög flott en hann hafði byrjað á bekknum.

Nokkru síðar var annað mark dæmt af West Ham, þriðja markið, en Michael Oliver, dómari leiksins flautaði brot á Andy Carroll í aðdrganda þess. Dómurinn var harður.


Útlitið dökkt fyrir Stoke
Lokatölurnar 1-1 en þetta eru mjög slæm úrslit fyrir Stoke sem komst í góða stöðu með marki Crouch. Stoke er áfram í næst neðsta sæti deildarinnar, nú fimm stigum frá öruggu sæti þegar liðið á eftir að spila fjóra deildarleiki til viðbótar.

Útlit er fyrir að Stoke verði í Championship á næstu leiktíð en West Ham stendur vel að vígi og er í 14. sæti, sjö stigum frá fallsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner