Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 16. apríl 2018 17:30
Elvar Geir Magnússon
Mistök hjá PSG að hafa ekki selt Verratti í fyrra
Verratti fær harða gagnrýni.
Verratti fær harða gagnrýni.
Mynd: Getty Images
Þrátt fyrir að Paris Saint-Germain hafi tryggt sér franska meistaratitilinn um helgina eru kröfurnar í frönsku höfuðborginni meiri. Liðið ætlaði sér að fara lengra en í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Þjálfarinn Unai Emery mun fá sparkið í sumar en Thomas Tuchel tekur líklega við starfinu.

Emery á ekki alla sök því nokkrir leikmenn hafa ekki náð að standa undir væntingum þegar þörfin er mest. Þar á meðal er Marco Verratti en þessi 25 ára Ítali var orðaður við Barcelona sem arftaki Xavi fyrir um ári síðan.

PSG sýndi mikla baráttu til að halda Verratti í sínum röðum og hafnaði stórum tilboðum.

Robin Bairner, fréttamaður Goal.com, skrifar pistil þar sem hann segir að það hafi verið mistök hjá franska félaginu að selja Verratti ekki í fyrra.

„Þegar tímabilið í heild sinni er skoðað hefur það verið vonbrigði fyrir miðjumanninn. Hann hefur misst af mikilvægum köflum vegna meiðsla en það var frammistaða hans og brottrekstur gegn Real Madrid sem sýndi að hann hefur ekki þróast út í þann elítuleikmann sem PSG vonaðist eftir þegar hann var keyptur frá Pescara 2012," segir Bairner.

„Veikleikar hans, sérstaklega þegar kemur að hugarfarinu, hafa ekki verið þurrkaðir út á sex árum hans í Frakklandi. Hann er enn gjarn á að hegða sér eins og ofdekraður krakki og hefur verið spjaldaður 11 sinnum í 38 leikjum á þessu tímabili. Oft fyrir mótmæli og að rífa kjaft. Hann hefur tvisvar fengið rautt."

Bairner segir að Verratti bregðist á ögurstundum og nefnir sem dæmi rauða spjaldið sem hann fékk í leiknum gegn Real Madrid.

„Barcelona hefur ekki lengur áhuga á honum. Þar á meðal vegna þess að leikstíll liðsins hefur breyst en líka vegna þess að Verratti er ekki að sýna það að hann eigi að spila í þessum gæðaflokki," skrifar Bairner.
Athugasemdir
banner
banner
banner