lau 16. júní 2018 20:30
Gunnar Logi Gylfason
Mido var í lífshættu - Tók sjálfan sig í gegn
Mido á árum áður
Mido á árum áður
Mynd: Getty Images
Egyptinn Mido, fyrrum sóknarmaður Tottenham, Middlesbrough og fleiri liða, var í lífshættu vegna offitu áður en hann ákvað að taka sjálfan sig í gegn.

Mido, sem nú er 35 ára, hætti knattspyrnuiðkun aðeins 30 ára gamall eftir að hafa misst áhugann á íþróttinni.

Nú hefur hann enduruppgötvað ást sína á fótbolta í gegnum þjálfun en hann fékk þjálfararéttindi hjá velska knattspyrnusambandinu.

Hann hefur nú talað um það að vegna offitu var líf hans í hættu.
„Ég var 150 kíló og gat ekki labbað 30 metra. Ef ég gerði það þá fékk ég verk í bakið, liðamót og hnén."

„Ég man að ég var að fara frá borði úr bátnum mínum á eyju í Egyptalandi fyrir fimm mánuðum síðan - það var vendipunkturinn í mínu lífi. Ég var með þremur vinum mínum og við þurftum að labba um 270 metra að enda eyjarinnar. Það var sólríkt og ég sagði vinum mínum að ég gæti ekki gengið og þurfti að setjast niður í hálftíma, 34 ára gamall."

„Tveimur dögum seinna fór ég til læknis og hann tók blóðprufu. Eftir að hann fékk niðurstöðurnar sagði hann mér að ég væri á barmi þess að fá sykursýki og að ef ég héldi áfram á þessari leið væru yfir 80% líkur á að ég næði ekki að lifa til fertugs."

Mido birti mynd af sér þegar hann var í sem verstu formi og frá því eftir að hann tók sig á á Twitter fyrir nokkrum vikum.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner