mán 16. október 2017 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Þjálfari Napoli: Man City augljóslega besta liðið í Evrópu
Mynd: Getty Images
Maurizio Sarri, þjálfari Napoli, hélt ekki aftur að sér þegar hann var spurður út í stórleikinn gegn Manchester City annað kvöld.

Sarri hrósaði Man City í hástert og lýsti yfir aðdáun sinni á félaginu, en City er á toppi ensku Úrvalsdeildarinnar á meðan Napoli er á toppnum á Ítalíu.

City er búið að skora 29 mörk í 8 fyrstu deildarleikjunum og er með þriggja stiga forystu í meistaradeildarriðlinum eftir tvær umferðir.

„Þegar lið vinnur flesta leiki með fimm marka mun er lítið hægt að gera. Það gerðist síðast í ágúst að Man City spilaði leik án þess að skora," sagði Sarri á fréttamannafundi.

„Þeir eru líka mjög góðir varnarlega og þess vegna verður þetta afar erfiður leikur. Man City er augljóslega með besta lið Evrópu um þessar mundir.

„Ég hefði frekar viljað mæta gæðaminna liði á þessu stigi keppninnar, ég er smeykari við City í ár heldur en ég var við Real Madrid í fyrra.

„Ef við töpum þá getum við huggað okkur við það að City mun líklega vinna alla aðra leiki riðilsins og þar af leiðandi skipta stigin gegn þeim minna máli."

Athugasemdir
banner
banner
banner