Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 09. nóvember 2022 18:00
Elvar Geir Magnússon
Hvar er fyrsti verðlaunagripur HM?
Carlos Alberto með Jules-Rimet verðlaunastyttuna.
Carlos Alberto með Jules-Rimet verðlaunastyttuna.
Mynd: Getty Images
Fyrir fyrsta Heimsmeistaramótið 1930 var gerður verðlaunagripur sem fyrst hlaut nafnið Victory. Frakkinn Abel Lafleur hannaði gripinn en á honum mátti sjá sigurgyðjuna Nike í öllu sínu veldi.

Gripurinn ferðaðist með skipi frá Frakklandi til Úrúgvæ þar sem fyrsta keppnin var haldin. Um borð voru meðal annars landslið Frakklands, Rúmeníu og Belgíu ásamt Jules Rimet, forseta FIFA. Úrúgvæ var fyrsti handhafi verðlaunanna.

Árið 1946 var nafni gripsins breytt og var hún nefnd Jules Rimet-styttan til heiðurs FIFA-forsetanum sem ýtti því í gegn að mótið yrði haldið.

Eftir að Ítalía vann HM 1938 liðu tólf ár í næstu keppni vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Ítalinn Ottorino Barassi, varaforseti FIFA, geymdi styttuna þessi tólf ár. Leynilega sótti hann hana í bankageymslu í Róm og geymdi hana í skókassa undir rúminu sínu til að koma í veg fyrir að hún færi í hendur nasista.

Fyrir HM 1966 var styttunni rænt en hundurinn Pickles varð hetja þegar hann fór í göngutúr með eiganda sínum og fann styttuna eins og við rifjuðum upp áðan.

Þegar HM var sett á laggirnar var ákveðið að sú þjóð sem fyrst yrði Heimsmeistari þrisvar fengi að eiga styttuna til eignar. Það gerðu Brasilíumenn 1970 og má sjá fyrirliða liðsins, Carlos Alberto, með verðlaunin á lofti á meðfylgjandi mynd.

Styttan var geymd í höfuðstöðvum brasilíska knattspyrnusambandsins þar til 1983 en þá var henni rænt aftur. Hún skilaði sér aldrei og er talið að hún hafi verið brædd í gullstangir og þar með eyðilögð.

Þess má geta að verðlaunagripurinn sem kom í stað Jules Rimet-styttunnar og notaður er í dag var hannaður af ítalska listamanninum Silvio Gazzaniga. Ekki er hægt að vinna hann til eignar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner