Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 17. janúar 2018 15:30
Magnús Már Einarsson
Jón Daði: Þetta var algjört bíó
Jón Daði sáttur eftir leikinn í gær.
Jón Daði sáttur eftir leikinn í gær.
Mynd: Twitter
Jón Daði skorar fyrsta markið.
Jón Daði skorar fyrsta markið.
Mynd: Getty Images
Reading spilaði í appelsínugulu í seinni hálfleik eftir að hafa spilað í aðalbúningum sínum í fyrri hálfleik.
Reading spilaði í appelsínugulu í seinni hálfleik eftir að hafa spilað í aðalbúningum sínum í fyrri hálfleik.
Mynd: Getty Images
„Þetta var virkilega gaman. Maður biður ekki um neitt meira. Þegar maður fær loksins alvöru tækifæri þá var frábært að skora þrennu," sagði Jón Daði Böðvarsson við Fótbolta.net í dag en hann skoraði þrennu í 3-0 sigri Reading á Stevenage í enska bikarnum í gær.

Geymir boltann á góðum stað
Neðst í fréttinni má sjá mörkin hjá Jóna Daða en annað markið hans kom með hörkuskalla í stöng og inn. „Þetta var góð sókn og góð fyrirgjöf. Ég náði að tímasetja mig rétt og koma boltanum af alvöru krafti á markið. Það var flott að þetta fór inn."

Eftir leikinn fékk Jón Daði boltann sem spilað var með eins og venjan er þegar leikmenn skora þrennu á Englandi. „Ég lét alla leikmennina skrifa á boltann. Það er ekki oft sem maður skorar þrennu og ég geymi boltann á góðum stað," sagði Jón Daði.

Nýir búningar sóttir í fyrri hálfleik
Reading spilaði í sínum hefðbundnu búningum í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik spilaði liðið í appelsínugulum varabúningum. Ástæðan var sú að búningar liðanna voru mjög líkir.

„Þetta var algjört bíó," sagði Jón Daði léttur í bragði aðspurður út í búningana. „Það tók enginn eftir þessu fyrr en leikurinn var að byrja. Ég spurði strákana að því hvort þetta væri ekki frekar líkir búningar og þeir voru sammála því. Síðan byrjaði leikurinn og þetta truflaði mig ekkert þó að þetta hafi kannski truflað aðra. Búningastjórinn fór að ná í hina búningana í fyrri hálfleik og við spiluðum í þeim í síðari hálfleik. Þetta var frekar skrýtið."

Jákvæður höfuðverkur fyrir Stam
Jón Daði hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Reading undanfarnar vikur en hann setur nú pressu á stjórann Jaap Stam fyrir komandi leiki.

„Þetta er jákvæður höfuðverkur fyrir kallinn. Mér finnst persónulega að ég eigi að spila meira en það er mitt persónulega mat á meðan hann hefur sínar skoðanir," sagði Jón Daði sem hefur verið ánægður með frammistöðu sína þegar hann hefur fengið tækifæri.

„Persónulega er ég virkilega ánægður með framlag mitt. Það eina sem hefur verið leiðinlegt er hversu fáar mínútur ég hef fengið. Engu að síður hef ég alltaf náð að standa mig þegar á völlinn er komið."

„Ég hef verið að nýta tækifærin þegar ég er ekki að spila mikið til að taka extra á því á æfingum. Liðið spilar hollenskan, aðlaðandi fótbolta og mér finnst jákvætt að vera í þannig umhverfi til að bæta mig meira sem leikmaður. Þetta er í fyrsta skipti sem maður er í svona fljótandi og flottum fótbolta."


Sér ekki eftir að hafa farið frá Wolves
Jón Daði kom til Reading frá Wolves í sumar. Reading er í 18. sæti deildarinnar á meðan Wolves er með tíu stiga forskot á toppnum. Jón Daði segist þó ekki sjá eftir því að hafa skipt um félag.

„Ég sá þennan árangur ekki fyrir hjá Wolves. Það var allt í rugli hjá þeim og miklar breytingar. Ég veit ekki hvað þeir keyptu marga leikmenn, skiptu um þjálfara, kokk og allan pakkann. Ég sé alls ekki eftir því að hafa skipt yfir. Það er bara flott hjá þeim að standa sig svona vel," sagði Jón Daði en hann vonast eftir fleiri tækifærum með Reading fyrir baráttuna á HM í sumar.

„Ég er alltaf með það bakvið eyrað að HM er framundan. Til að vera í toppformi þá vill maður spila sem flestar mínútur og standa sig hjá Reading. Ég þarf fyrst og fremst að hugsa um að bæta mig og vinna mig inn í þetta lið aftur. Ég er bjartsýnn á að það muni gerast," sagði Jón Daði að lokum.

Hér að neðan má sjá mörkin hjá Jóni Daða í gær.

Sjá einnig:
Mynd: Jón Daði með verðlaun
Stam: Jón Daði þarf að sýna sig
Jón Daði skoraði þrennuna í sitthvorri treyjunni

Athugasemdir
banner
banner
banner