Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 17. febrúar 2017 15:27
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Gummi Tóta: Skil ekki hvernig þetta þróaðist
Gummi (til hægri) fagnar bikarmeistaratitli með Rosenborg í fyrra.
Gummi (til hægri) fagnar bikarmeistaratitli með Rosenborg í fyrra.
Mynd: Getty Images
Guðmundur Þórarinsson.
Guðmundur Þórarinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Þórarinsson segist vera hissa á því að Rosenborg hafi samþykkt að selja sig til sænska félagsins IFK Norrköping. Guðmundur kom til Rosenborg frá danska félaginu Nordsjælland fyrir tæpu ári síðan. Hann varð tvöfaldur meistari í Noregi með Rosenborg í fyrra en félagið ákvað að selja hann til Norrköping og gengið var frá skiptunum í dag.

„Ég kom þegar þrír leikir voru búnir en byrjaði samt í 16 leikjum í deildinni og kom inn á í níu. Ég er alls ekki ósáttur með það hvernig ég stóð mig. Ég er bara mjög hissa á því hvernig þeir unnu þetta í kringum mig," sagði Guðmundur við Fótbolta.net í dag um síðasta tímabil hjá Rosenborg.

„Þeir keyptu mig á þriggja og hálfs árs samningi og ég spilaði helling og stóð mig vel. Ég hef fengið mörg skilaboð núna þar sem enginn skilur neitt hvað er í gangi. Ég bara skil ekki hvernig þetta þróaðist og ég er ennþá að ná áttum með það. Maður hefur heyrt margar sérstakar sögur úr fótboltaheiminum og þetta er sennilega ein af þeim. Það þýðir ekki að vera bitur yfir því heldur taka næstu áskorun og tækla hana vel."

Leikmenn sjokkeraðir
Margir leikmenn og stuðningsmenn Rosenborg eru hissa á að Guðmundur hafi verið seldur. „Ég fékk mörg skilaboð, sérstaklega frá leikmönnum. Þeir voru létt sjokkeraðir yfir þessu. Það er fínt að finna að samherjarnir og einhverjir stuðningsmenn voru ánægðir með mig. Það er þægilegt að heyra að maður hafi verið að gera góða hluti. Það er skemmtilegt að fá þau skilaboð."

Guðmundur var staðráðinn í að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Rosenborg á undirbúningstímabilinu en hann meiddist síðan á hné í æfingaferð á Kanarí eyjum í síðasta mánuði.

„Markmiðið var að sýna sig og sanna hjá Rosenborg. Síðan meiddist ég á hné og var frá í átta vikur. Þetta hjá Norrköping kom upp fyrir 1-2 vikum síðan og ég fékk þau skilaboð frá Rosenborg að ég mætti ráða þessu. Rosenborg var búið að fá fullt af leikmönnum og þá áttaði ég mig á því að ég væri ekki að fá lykilhlutverk heldur mögulega sama hlutverk og í fyrra, að vera kartafla sem er notuð hér og þar. Ég var mjög hrifinn af því sem þjálfarinn hjá Norrköping hafði við að segja við mig og hvað þeir lögðu mikið í mig að fá mig. Ég held að ég fái lykilhlutverk hér," sagði Guðmundur sem er spenntur fyrir Norrköping.

„Mér líst vel á þennan klúbb. Ég þekki David Moberg, sem ég spilaði með í Nordsjælland, og ég talaði bæði við hann og Jón Guðna (Fjóluson). Ég held að þetta henti mér vel að öllu leyti. Ég er aðallega spenntur að fá að spila fótbolta og njóta þess."

Guðmundur getur leyst ýmsar stöður á miðjunni og hann er spenntur fyrir kerfinu sem Norrköping spilar.

„Þeir spila með fjögurra manna línu þegar þeir verjast. Þegar við sækjum þá er byggt upp með þremur í vörninni og einn bakvörðurinn fer upp sem kantari á meðan einn kantari kemur inn. Þeir vilja stjórna leiknum með boltanum og ég held að þetta henti mér mjög vel," sagði Guðmundur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner