Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 17. febrúar 2017 11:48
Elvar Geir Magnússon
Jón Daði: Næsta mark er handan við hornið
Jón Daði Böðvarsson í leik með Úlfunum.
Jón Daði Böðvarsson í leik með Úlfunum.
Mynd: Getty Images
Jón Daði spilar stórt hlutverk fyrir íslenska landsliðið.
Jón Daði spilar stórt hlutverk fyrir íslenska landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Daði Böðvarsson hefur ekki skorað fyrir Wolves síðan í ágúst. Eins og hans er von og vísa hefur ekkert vantað upp á dugnaðinn og vinnusemina þegar hann spilar en mörkin hafa látið á sér standa.

Selfyssingurinn var mjög nálægt því að skora þegar Wolves sló Liverpool úr leik í bikarnum. Hann kom inn sem varamaður en Loris Karius, markvörður Liverpool, varði í tvígang vel frá Jóni.

„Þetta var frábær leikur, maður hljóp á adrenalíninu og ástríðunni. Þetta var gríðarlega skemmtilegur leikur og gaman að taka þátt í honum. Það hefði verið ljúft að skora en þetta er að koma. Ég er mjög nálægt næsta marki," segir Jón Daði við enska fjölmiðla.

„Markaþurrðin er pirrandi en ég tel að það sé mikilvægt að horfa til annarra hluta leiksins og hversu nálægt því maður er að skora næsta mark. Þolinmæði er lykillinn."

Þú vilt spila við þá bestu
Wolves á leik gegn Chelsea, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, í bikarnum á morgun og yrði ansi skemmtilegt að sjá íslenska landsliðsmanninn skora í þeim leik.

„Auðvitað verður þetta mjög erfiður leikur. Chelsea hefur verið langbesta lið ensku úrvalsdeildarinnar en ég og strákarnir erum mjög spenntir. Þú vilt alltaf spila gegn þeim bestu."

Úlfarnir eru í 18. sæti Championship-deildarinnar.

„Helsta vandamálið hefur verið skortur á stöðugleika. Þetta hefur verið furðulegt tímabil því við erum með gott lið en erum ekki alltaf að sýna það. Þú getur ekki breytt því liðna en við þurfum að horfa fram á veginn og það eru möguleikar á að klára tímabilið á jákvæðan hátt," segir Jón Daði.

Vorkenndi Englendingum
Í viðtali við Sky Sports ræðir Jón Daði einnig um Evrópumót landsliða síðasta sumar, Víkingaklappið og sigurinn gegn Englandi. Hann segir að Lars Lagerback sé einn allra besti þjálfari sem hann hafi kynnst og talar um að sá sænski hafi sagt fyrir leikinn gegn Englandi að það væri eitt allra ofmetnasta landslið heims. Lagerback hefur sjálfur talað um þetta í viðtali.

„Ég vorkenndi landsliðsmönnum Englands í lokin. Ég fór til þeirra eftir leikinn og þakkaði fyrir leikinn. Fólk segir að þeim hafi verið alveg sama sem er bull. Þeir gerðu sitt besta. Fólk gleymir því að við höfum leikmenn úr sterkum deildum. Það er erfitt að vera í enska landsliðinu með alla þá pressu sem kemur frá fjölmiðlum og almenningi," segir Jón Daði sem hefur eina eftirsjá frá EM.

„Ég er enn að hugsa um leikinn gegn Frökkum (í 8-liða úrslitum) þó við höfum borið höfuðið hátt eftir tapið. Við áttum Portúgal í riðlakeppninni og þeir enduðu í þriðja sæti riðilsins en unnu mótið. Ég hef af og til hugsað: 'Af hverju fórum við ekki alla leið?' - Þetta er smá böggandi en við gerðum svo góða hluti og ég mun aldrei gleyma því að hafa fengið að vera hluti af þessu."
Athugasemdir
banner
banner
banner