mán 17. júlí 2017 16:45
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Jón Daði: Þetta tímabil er make it or break it
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Daði í leik með Wolves.
Jón Daði í leik með Wolves.
Mynd: Getty Images
„Ég heyrði af áhuga Reading fyrir viku síðan. Þeir komu með tilboð sem var samþykkt. Ég heyrði það frá Agga (Magnúsi Agnari Magnússyni, umboðsmanni) um kvöldið og ég pakkaði niður og keyrði til Reading þar sem ég fór í læknisskoðun," sagði Jón Daði Böðvarsson, nýjasti leikmaður Reading, við Fótbolta.net í dag.

Jón Daði var ekki inni í áætlunum Nuno Espírito Santo, nýráðins stjóra Wolves, og úr varð að Reading keypti hann.

„Ég fékk að heyra að ég væri ekki inni í myndinni. Það voru rosalegar breytingar hjá Wolves. Hann kemur inn með sínar hugmyndir, 7-8 nýja leikmenn og nýtt starfsfólk. Þegar þú ert kominn á svona hátt level í fótboltanum þá ertu bara meðhöndlaður eins og einhver hlutur oft á tíðum," sagði Jón Daði.

„Ég var spenntur fyrir nýju tímabili og spenntur fyrir nýjum tíma hjá Wolves. Þetta fór hins vegar svona. Ég er ánægður með að hafa tekið annað skref og vonandi er það bara betra."

Spenntur að spila undir stjórn Stam
Reading var hársbreidd frá því að komast upp í ensku úrvalsdeildina í vor en liðið tapaði gegn Huddersfield í úrslitaleik umspilsins.

„Þetta er frábær klúbbur og hann er mjög stór á Englandi. Síðasta tímabil var frábært og liðið var mjög nálægt því að fara upp í úrvalsdeildina. Það eru gerðar væntingar til mín og allra í liðinu núna. Stefnan er sett á sem bestan árangur í ár. Maður vill vera í þannig umhverfi og þroskast og læra."

Jaap Stam er stjóri Reading en hann er fyrrum varnarmaður Manchester United. Jón Daði hefur verið stuðningsmaður United frá því í æsku.

„Ég fylgdist með United sem lítill polli þegar allir þessir snillingar voru þarna. Það er mjög gaman að hann sé orðinn þjálfarinn minn. Ég ber þvílíka virðingu fyrir honum. Hann átti rosalegan feril og það verður gaman að læra nýja hluti frá honum. Hann er mjög reynslumikill og það verður gaman að læra af því," sagði Jón Daði en hann kann vel við Stam eftir fyrstu dagana hjá Reading.

„Hann er flottur kall. Hann er með léttleika en setur líka kröfur á þig. Hann segir hreinskilið ef hann er ekki sáttur með eitthvað hjá þér en hann er líka duglegur að hrósa þér. Hann er með hollenskan aðstoðarmann og þetta er mjög gott teymi. Fyrstu kynni mín af þeim hafa verið mjög góð."

Staðráðinn í að skora fleiri mörk
Jón Daði kemur bæði til greina á kantinum og sem fremsti maður hjá Reading.

„Hann er með sitt kerfi og hann vill spila aðlaðandi fótbolta. Ég hef ekki oft á ferlinum fengið tækifæri til að spila þannig hjá félagsliðum. Hann er mikið með þrjá uppi á topp, 4-3-3 eða eitthvað svoleiðis. Þá eru framherjar sem eru vængmenn líka. Ég hlakka til að komast inn í þetta kerfi og læra það hægt og rólega. Kannski hentar þetta mér mjög vel,"

Jón Daði skoraði einungis þrjú mörk í 42 leikjum í Championship deildinni með Wolves á síðasta tímabili.

„Markaskorun mín hefur verið mjög mikil vonbrigði síðustu tímabil. Það er ekki hægt að flýja undan því. Maður er á fullu að reyna að bæta það. Það er það sem ég þarf helst að bæta í leik mínum. Allt annað er þannig séð til staðar. Maður passar sig að líta á björtu hliðarnar í leik sínum og markmiðið númer 1, 2 og 3 er að halda í sömu gildi sem leikmaður og bæta öðru kostum við. Þetta tímabil er bara make it or break it. Maður setur sér markmið að komast hratt inn í hlutina og gera sitt besta á þessu tímabili," sagði Jón Daði ákveðinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner