Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 17. september 2014 14:00
Magnús Már Einarsson
Bestur í 2. deild: Þessar tvær mínútur voru heil eilífð
Guðmundur Marteinn í leiknum á laugardag.
Guðmundur Marteinn í leiknum á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Gróttumenn fagna sætinu í 1. deild.
Gróttumenn fagna sætinu í 1. deild.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Guðmundur í leik gegn Njarðvík fyrr í sumar.
Guðmundur í leik gegn Njarðvík fyrr í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
,,Það er gríðarlega ljúft að vera búinn að klára þetta fyrir síðasta leikinn," segir Guðmundur Marteinn Hannesson fyrirliði Gróttu en liðið tryggði sér sæti í 1. deild með 4-1 sigri á Aftureldingu í næstsíðustu umferð 2. deildarinnar um síðustu helgi.

Á sama tíma gerði ÍR jafntefli við Ægi á útivelli og því gátu Gróttumenn fagnað 1. deildarsæti eftir leikinn gegn Aftureldingu þar sem þeir eru fjórum stigum á undan Breiðhyltingum fyrir lokaumferðina.

,,Það var hrikalega erfitt að bíða út á velli eftir staðfestum úrslitum í leik Ægis og ÍR, mér fannst þessar 2 mínútur sem við biðum eftir úrslitunum taka heila elífð. Ég tók það mjög inná mig á sínum tíma þegar við féllum úr 1. deildinni en ég er mjög stoltur af því að fá að vera fyrirliði Gróttu liðsins sem tryggði sér sæti í 1. deild að nýju."

Var farinn að hafa áhyggjur
Í ágúst virtist fátt geta komið í veg fyrir að Grótta myndi fljúga upp í 1. deild en þá tapaði liðið fjórum leikjum í röð og hleypti ÍR og Huginn inn í baráttuna á nýjan leik.

,,Við misstum lykilmenn bæði í meiðsli og út í nám sem hafði áhrif á liðið. Einnig verður að segjast að við áttum í erfiðleikum með þessi sömu lið í fyrri umferð. Kannski var komið eitthvað smá kæruleysi í hópinn eftir að vera komnir með svona gott forskot þegar við vorum að mæta liðum þurftu nauðsynlega á sigrum að halda," sagði Guðmundur Marteinn sem neitar ekki að hann hafi verið farinn að hafa áhyggjur af gangi mála.

,,Ég verð að segja að ég var farinn að hafa smá áhyggjur eftir 0-4 tapið á móti Njarðvík heima. Ekki hjálpaði að vinnufélagirnir voru farnir að hnýta í mig fyrir Aftureldingarleikinn. En við vorum allir 110% tilbúnir í slaginn á móti Aftureldingu, maður fann það inn í klefa fyrir leik að við vorum alltaf að fara að klára dæmið."

Lagt upp með að spila skemmtilegan fótbolta
Guðmundur Marteinn hefur verið í Gróttu frá árinu 2008 en hverju þakkar hann góðan árangur félagsins í sumar?

,,Electric Avenue með Eddy Grant," sagði Guðmundur í léttum tón. ,,Nei, við vorum með alveg gríðarlega góðan og þéttan hóp í sumar. Það eru miklir fagmenn í liðinu og góðir fótboltamenn."

,,Við lögðum upp með að spila skemmtilegan fótbolta og ég held það hafi tekist af mestu leyti, mér fannst að minnsta kosti mjög gaman að taka þátt í leikjunum. Ég held það hafi líka verið gaman að fylgjast með liðinu í sumar."

,,Umgjörðin í kringum liðið er líka alveg til fyrirmyndar, miklu betri en ég hef kynnst annars staðar. Það skiptir miklu máli að manni líði vel og það gerir maður svo sannarlega hjá Gróttu! Það voru algjör forréttindi að fá að taka þátt í þessu."


Vonar að Viggó haldi áfram
Grótta féll úr 1. deildinni sumarið 2011 en Guðmundur telur að liðið sé betur í stakk búið að standa sig þar núna. ,,Já ég myndi segja það. Við erum nokkrir ennþá í liðinu sem spiluðu með Gróttu í 1. deildinni. Ég held líka að þeir sem eru að vinna í kringum liðið átti sig á hvað þurfi að gera til að standa sig betur en síðast."

,,Það er mikill munur á 1. deild og 2. deild svo ég geri ráð fyrir því að við munum styrkja liðið á nokkrum stöðum. Það er samt mikilvægt að halda í ákveðinn kjarna og byggja í kringum hann. Ég er að vonast eftir að Viggó (Kristjánsson) taki slaginn með okkur í 1. deildinni þó svo hann sé búinn að gefa það út að hann sé hættur í fótbolta og farinn í handboltann. Það eru að minnsta kosti mjög spennandi tímar framundan á Nesinu,"
sagði Guðmundur að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 20. umferðar: Andri Fannar Freysson (Njarðvík)
Leikmaður 19. umferðar: Brynjar Jónasson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 18. umferðar: Sveinn Fannar Sæmundsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 17. umferðar: Steinþór Már Auðunsson (Dalvík/Reynir)
Leikmaður 16. umferðar: Alvaro Montejo Calleja (Huginn)
Leikmaður 15. umferðar: Almar Daði Jónsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 14. umferðar: Halldór Hilmisson (Grótta)
Leikmaður 13. umferðar: Bjarki Þór Jónasson (Völsungur)
Leikmaður 12. umferðar: Viggó Kristjánsson (Grótta)
Leikmaður 10. umferðar: Jón Gísli Ström (ÍR)
Leikmaður 9. umferðar: Björn Axel Guðjónsson (Njarðvík)
Leikmaður 8. umferðar: Brynjar Jónasson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 7. umferðar: Andri Þór Magnússon (Fjarðabyggð)
Leikmaður 6. umferðar: Atli Haraldsson (Sindri)
Leikmaður 5. umferðar: Hrafn Jónsson (Grótta)
Leikmaður 4. umferðar: Milos Ivankovic (Huginn)
Leikmaður 3. umferðar: Arnar Sigurðsson (Grótta)
Leikmaður 2. umferðar: Viktor Smári Segatta (ÍR)
Leikmaður 1. umferðar: Alexander Aron Davorsson (Afturelding)
Athugasemdir
banner
banner