Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 17. desember 2017 17:11
Ívan Guðjón Baldursson
Allegri: Dybala ekki uppá sitt besta
Mynd: Getty Images
Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus, var aðallega spurður út í Paulo Dybala eftir 3-0 sigur Juve á útivelli gegn Bologna.

Dybala fékk aðeins að spreyta sig á síðasta stundarfjórðungi leiksins og komst nálægt því að skora. Allegri telur Dybala þurfa að bæta sig líkamlega og andlega til að vinna sig aftur inn í byrjunarliðið.

„Napoli og Inter hafa verið að gera stórkostlega hluti og ég er ánægður að vera með þeim í toppbaráttunni. Varnarvinnan er að skila mikilvægum stigum," sagði Allegri.

„Dybala kom inn af bekknum og gerði vel en var óheppinn að skora ekki. Stundum eru menn ekki uppá sitt besta en sem betur fer er ég með stóran og góðan leikmannahóp. Heilbrigð samkeppni um byrjunarliðssæti er mikilvæg.

„Fótbolti er liðsíþrótt, það verður alltaf að taka liðið framyfir einstaklinga. Paulo er afar hæfileikaríkur en þarf að vera í góðu standi, bæði andlega og líkamlega."


Allegri gagnrýndi einnig fjölmiðla sem hafa verið að blása getu Dybala upp úr öllu valdi.

„Fjölmiðlaumfjöllunin hjálpar ekki, þegar það er verið að líkja honum við Leo Messi. Þið (fjölmiðlamenn) gerið þetta oft við unga leikmenn. Þó að leikmaður eigi nokkra góða leiki þá gerir það hann ekki að besta leikmanni heims. Þetta er óheilbrigð og skaðandi umfjöllun," hélt Allegri áfram.

„Ég sagði að mér þætti ólíklegt að Dybala gæti haldið áfram að raða inn mörkunum eins og í upphafi tímabils og meinti það. Liðið er að gera góða hluti sem stendur og ég mun alltaf velja það byrjunarlið sem ég tel vænlegast til árangurs."
Athugasemdir
banner
banner
banner