fim 18. janúar 2018 18:36
Elvar Geir Magnússon
Raggi Sig þriðji Íslendingurinn í Rostov (Staðfest)
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Ragnar Sigurðsson landsliðsmiðvörður er kominn í nýtt félag í Rússlandi en hann hefur samið við Rostov. Hjá félaginu eru einnig Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson.

Ragnar var í eigu Fulham en hann var á láni hjá Rubin Kazan sem á í fjárhagsvandræðum og hefur ekki getað borgað leikmönnum sínum laun. Hann hefur gert samning við Rostov út yfirstandandi tímabil.

Ragnar er 31 árs og gæti spilað við hlið Sverris í miðverðinum en þeir eru félagar hjá íslenska landsliðinu.

Ragnar er lykilmaður í íslenska landsliðinu og hjálpaði liðinu að tryggja sér sæti í lokakeppni HM.

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn til Rostov. Hér eru liðsfélagar mínir úr landsliðinu og ég hef heyrt mikið um gott andrúmsloft hjá félaginu. Ég er viss um að ég hafi tekið rétta ákvörðun og ég mun gera allt til að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum," segir Ragnar.

Ragnar er uppalinn Fylkismaður en hefur á atvinnumannaferlinum leikið í Svíþjóð, Danmörku, England og Rússlandi. Rostov er þriðja rússneska félagið sem hann leikur fyrir en hann gekk í raðir Krasnodar 2014.

FC Rostov er í borginni Rostov On Don en þar leikur Ísland við Króatíu á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar. Liðið er í níunda sæti rússnesku deildarinnar. Menn eru greinilega hrifnir af Íslendingum hjá Rostov. Fyrr í þessum mánuði var sóknarmaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson keyptur frá Molde og þá hefur félagið reynt að fá Hörð Björgvin Magnússon.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner