fös 18. apríl 2014 23:45
Elvar Geir Magnússon
Wenger: Özil gæti orðið bestur næsta tímabil
Mesut Özil, leikmaður Arsenal.
Mesut Özil, leikmaður Arsenal.
Mynd: Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, viðurkennir að Mesut Özil hafi verið í vandræðum með að aðlagast ensku úrvalsdeildinni en telur að stuðningsmenn muni sjá hann fara á kostum næsta tímabil.

Özil hefur verið frá síðustu vikur vegna meiðsla aftan í læri en Wenger vonast til að Þjóðverjinn geti leikið gegn Hull á sunnudaginn.

„Hann er magnaður leikmaður. Ég tel að hann gæti orðið leikmaður tímabilsins á næsta ári," segir Wenger um Özil, manninn sem hann borgaði 42,5 milljónir fyrir síðasta sumar.

Tímabilið hefur verið kaflaskipt hjá Özil. Stundum hefur hann sýnt snilldartakta en einnig átt leiki þar sem hann hefur verið týndur. Á köflum hefur hann ekki virkað tilbúinn í þá líkamlegu baráttu sem fylgir ensku úrvalsdeildinni.

„Margir leikmenn sem koma að utan þurfa eitt tímabil til að aðlagast. Ég tel að þegar hann er búinn að kynnast mönnunum í kringum sig betur og þekkir deildina vel þá gæti hann algjörlega blómstrað."

Pressan á Özil hefur verið mikil síðan hann var keyptur frá Real Madrid. Hlutverk hans hjá Arsenal er stærra en hjá Real. Hann er stjarna sýningarinnar ólíkt því sem hann var á Spáni.

„Hann hefur farið í gegnum erfiða kafla því hann var ekki alveg tilbúinn fyrir þessi líkamlegu átök. Hann var keyptur á lokadegi gluggans og fékk engan tíma til undirbúnings. Á Spáni gefast lið upp þegar þau lenda 2-0 undir gegn Real Madrid. Þau vita að þau munu tapa leiknum. Hér á Englandi berjast menn eins og brjálæðingar til að koma til baka. Menn þurfa að berjast alveg til loka," segir Wenger.

Arsenal er komið í úrslitaleik FA-bikarsins og á góðri leið með að ná Meistaradeildarsæti enn og aftur. Framtíð Wenger hefur þó mikið verið í umræðunni og sögusagnir um að Frakkinn sé á síðasta tímabili sínu.

Enskir fjölmiðlar hafa þó talað um að Wenger sé þó byrjaður að vinna í að bæta við mönnum fyrir næsta tímabil. Sebastian Jung, 23 ára varnarmaður Eintracht Frankfurt, er sagður á óskalista Wenger. Bacary Sagna mun líklega yfirgefa Emirates í sumar og þarf Arsenal að finna hægri bakvörð.
Athugasemdir
banner
banner