mið 18. apríl 2018 18:10
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Akraborgin 
Fylkir vonast eftir því að fá Ólaf Inga eftir HM - Fyrstu heimaleikirnir í Egilshöll
Ólafur Ingi í landsliðsverkefni.
Ólafur Ingi í landsliðsverkefni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vonumst eftir því að Ólafur Ingi Skúlason komi eftir HM. Það er ekki frágengið en við vonumst eftir því," sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, í viðtali við Akraborgina.

Líklegt er að Ólafur Ingi verði valinn í landsliðshópinn fyrir HM í Rússlandi. Þessi 35 ára miðjumaður er uppalinn hjá Fylki en spilar nú með Karabukspor, botnliði tyrknesku úrvalsdeildarinnar.

Í viðtalinu við Akraborgina sagði Helgi einnig frá því að varnarmaðurinn Ásgeir Eyþórsson kæmi aftur til félagsins í lok maí. Ásgeir missti af síðustu umferðunum í fyrra þar sem hann hélt erlendis í nám.

Fylkir komst upp úr Inkasso-deildinni í fyrra og erspáð 10. sæti af Fótbolta.net í Pepsi-deildinni þetta sumarið.

Fylkisvöllurinn ekki klár
Verið er að leggja gervigras á heimavöll Fylkis og er vinna við það hafin að sögn Helga. Ljóst er að liðið þarf að byrja fyrstu heimaleiki sína á öðrum velli. Fyrst var talið að Þróttaravöllurinn í Laugardal yrði fyrir valinu en Árbæingar munu leika í Egilshöllinni.

„Okkar fyrstu heimaleikir verða mjög sennilega í Egilshöll. Það er það nýjasta í spilunum. Við höfum verið þar mikið í vetur og gengið vel. Þetta er engin draumastaða en við ætlum að hugsa jákvætt um þetta og látum okkur hlakka til að mæta í Árbæinn aftur. Við erum undirbúnir fyrir þetta," segir Helgi.

Fylkir hefur mótið á útivelli, gegn Víkingi Reykjavík 28. apríl . Fyrsti heimaleikurinn verður gegn KA þann 6. maí.

Sjá einnig:
Fjölnir spilar fyrsta leik í Pepsi-deildinni í Egilshöll


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner