Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 18. júlí 2014 14:00
Kristján Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Er bilið að minnka?
Kristján Jónsson
Kristján Jónsson
Spánverjar fóru snemma heim.
Spánverjar fóru snemma heim.
Mynd: Getty Images
Chile kom á óvart.
Chile kom á óvart.
Mynd: Getty Images
Ástralíumenn stóðu í Hollendingum.
Ástralíumenn stóðu í Hollendingum.
Mynd: Getty Images
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Að lokinni Heimsmeistarakeppninni er ekki galið að renna aðeins yfir gang mála í henni og skoða hvort þar megi merkja einhverja þróun í fótboltanum. Eftir að hafa rifjað upp keppnina í huganum, og á pappírum, þá finnst mér vera himinhrópandi vísbendingar um að bilið á milli elítuþjóðanna og hinna fari minnkandi og kannski er bililð á milli heimsálfa einnig að minnka.

Ef við kíkjum á riðlakeppnina þá blasir við að stórþjóðir í fótboltanum á borð við Spán og Ítalíu þurftu að halda heim. Liðin sem unnu síðustu tvær keppnir. Einnig má nefna Króatíu, Portúgal, Fílabeinsströndina og England, en þó ekki sé um elítuþjóðir að ræða þá hafa þær engu að síður stundum haft burði til að komast nokkuð áleiðis í keppninni í gegnum tíðina. Á hinn bóginn fóru þjóðir þjóðir eins og Kosta Ríka, Alsír, Sviss, Grikkland og Chile í útsláttarkeppnina en einhvern tíma hefði þessi upptalning talist til töluverðra tíðinda.

Hörkuleikir í riðlakeppninni
Fyrir utan óvænt úrslit og óvænt tíðindi sem hér hafa verið rakin þá voru leikirnir á milli elítuþjóða og hinna einnig mjög jafnir oft á tíðum. Þar er um breytingu að ræða því fjölmörg dæmi eru um að þjóðir eins og Brasilía, Argentína, Þýskaland og Holland hafi farið lauflétt í gegnum leiki þegar komið er í lokakeppni HM. Hollendingar virtust vera á heimleið á móti Mexíkó en höfðu heppnina með sér á lokamínútunum og enduðu með brons um hálsinn. Einhvern tíma hefðu það þótt stórtíðindi að Brasilía þyrfti vítaspyrnukeppni til að vinna Chile á sínum eigin heimavelli.

Þjóðir sem lökustum árangri náðu í keppninni létu ekki valta yfir sig nema nánast með einni undantekningu og það var Kamerún. Þar var greinilega eitthvað mikið að eins og sparkelskir urðu vitni að þegar orkunni var eytt í að slást við samherjana í miðjum leik. Önnur lið sem enduðu á botni síns riðils bitu verulega frá sér eins og Ghana sem gerði jafntefli við liðið sem vann keppnina. Íran tapaði með minnsta mun fyrir Argentínu sem og Suður-Kórea á móti Belgum. Leikmönnum Hondúras var ekki alls varnað þó þeir töpuðu 0:3 í tvígang, Ástralía átti hörkuleik á móti Hollandi og Japan gegn Fílabeinsströndinni.

Góð tíðindi fyrir Ísland
Fyrir utan hráar staðreyndir eins og úrslitin þá dreg ég einnig þá ályktun að bilið sé að minnka út frá því hvernig leikirnir spiluðust. Hvort sem um var að ræða Kólumbíu, Ekvador, Mexíkó eða Kosta Ríku þá áttu þessi lið heilmikið í leikjunum á móti bestu liðunum. Þegar Kosta Ríka komst óvænt í 16-liða úrslit á HM á Ítalíu þá var þeim slátrað af Tékkum þegar þangað var komið. Nú þurfti vítaspyrnukeppni til að slá liðið út úr 8-liða úrslitum. Á þessu er umtalsverður munur.

Nú má auðvitað velta því fyrir sér hvort draga eigi of miklar ályktanir af einni keppni. Kannski munu elítuþjóðirnar vinna auðvelta 4:0 og 5:0 sigra í riðlakeppninni eftir fjögur ár. Hver veit? En ef þessi keppni í Brasilíu er vísbending um að bilið á milli landsliða í knattspyrnuheiminum sé að minnka þá hljóta það að teljast gleðitíðindi fyrir stuðningsmenn landsliðs fámennrar þjóðar sem aldrei hefur komist í lokakeppni á stórmóti í karlaflokki. Með markvissum vinnubrögðum er ýmislegt gerlegt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner