þri 18. júlí 2017 10:45
Magnús Már Einarsson
Bestur í 11. umferð: Fórum beint á Youtube að æfa fagnið
Hallgrímur Mar Bergmann
Hallgrímur í leiknum á sunnudaginn.
Hallgrímur í leiknum á sunnudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hallgrímur Mar Bergmann er leikmaður 11. umferðar í Pepsi-deildinni hér á Fótbolta.net eftir að hafa skorað þrennu og lagt upp eitt mark í 6-3 sigri KA á ÍBV á sunnudag. Var þetta besti leikur Hallgríms á ferlinum?

„Já ætli það ekki, allavega einn af betri leikjum sem ég hef spilað í góðan tíma," sagði Hallgrímur en sigurinn var kærkominn fyrir KA eftir erfiðan kafla að undanförnu.

„Þetta var mjög sætt. Þessi sigur var gífurlega mikilvægur fyrir okkur þar sem við vorum búnir að tapa þremur í röð og þurftum nauðsynlega á sigri að halda til að sogast ekki enn neðar í töfluna eins og við vorum búnir að vera að gera hægt og rólega."

„Hugsaði hvað í andskotanum við værum að gera"
ÍBV byrjaði betur og eftir korter voru Eyjamenn komnir í 2-0.

„Ég hugsaði bara hvað í andskotanum við værum eiginlega að gera og margt fleira sem er betur geymt hjá mér, sem sýndi sig lika kannski þegar ég "fagnaði" fyrsta markinu. Reiðin braust út og ég lét nánast alla í liðinu heyra það," sagði Hallgrímur og hló.

Vill sjá fleiri fögn
Hallgrímur fagnaði þriðja marki sínu með sérstöku handabandi með bróður sínum Hrannari Birni. Handabandið fékk sinn skammt af gagnrýni í Pepsi-mörkunum í gær.

„Þetta var gert fyrir litla bróðir minn Andra sem bað mig að fagna eins og Marcelo og Ronaldo. En þetta var óæft, ótrulegt en satt þar sem við búum saman og það sást svo sem greinilega. Þessi gagnrýni átti alveg rétt á sér miðað við framkvæmd fagnsins, en Hrannar á alla sök á því fyrir að vera mjög lengi að kveikja á perunni," sagði Hrannar léttur en þeir bræður ætla að æfa fagnið betur.

„Við fórum beint á Youtube og tókum eina æfingu í gærkvöldi, það kemur gott og betra fagn næst þegar ég skora. Mér finnst of lítið af skemmtilegum fögnum í deildinni, fyrir utan Andra Rúnar sem er búinn að vera sterkur í fögnunum. Það má bæta þetta finnst mér."

KA er 15 stig í 5. sæti Pepsi-deildarinnar eftir fyrri umferðina en hvert er markmið liðsins út tímabilið?

„Eitt markmið hefur ekkert verið rætt eitthvað sérstaklega Við viljum bara reyna að enda eins ofarlega og við getum. Eins og deildin hefur spilast hingað til eru allir sem virðast geta unnið alla, fyrir utan kannski Val. Svo það er mjög stutt á milli í þessu. En við erum með það gott lið að ég geri kröfu á að við verðum að berjast í efri hlutanum," sagði Hallgrímur að lokum.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi-deild karla og kvenna fá Pizzu veislur frá Domino's í sumar.



Sjá einnig:
Leikmaður 9. umferðar - Arnór Sveinn Aðalsteinsson (KR)
Leikmaður 8. umferðar - Haukur Páll Sigurðsson (Valur)
Leikmaður 7. umferðar - Sindri Snær Magnússon (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Emil Lyng (KA)
Leikmaður 5. umferðar - Arnar Már Guðjónsson (ÍA)
Leikmaður 4. umferðar - Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Aleksandar Trninic (KA)
Leikmaður 2. umferðar - Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan)
Leikmaður 1. umferðar - Steven Lennon (FH)
Athugasemdir
banner
banner
banner