Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fös 18. ágúst 2017 12:00
Elvar Geir Magnússon
Er þynnka í Bæjurum?
Upphitun fyrir þýsku deildina
Robert Lewandowski, helsti markaskorari Bayern.
Robert Lewandowski, helsti markaskorari Bayern.
Mynd: Getty Images
Peter Bosz er tekinn við Dortmund.
Peter Bosz er tekinn við Dortmund.
Mynd: Getty Images
Meistararnir í Bayern München.
Meistararnir í Bayern München.
Mynd: Getty Images
Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg gætu verið í fallbaráttu.
Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg gætu verið í fallbaráttu.
Mynd: Getty Images
Fyrir hvert tímabil í þýska boltanum vonast hlutlausir eftir því að titilbaráttan verði opin og spennandi, að Bayern München stingi ekki af í deildinni.

Bayern München stefnir á að vinna þýska meistaratitilinn sjötta árið í röð en liðið tekur á móti Bayer Leverkusen í opnunarleik Bundesligunnar í kvöld.

Innistæðan fyrir þeirri von að það verði spenna í titilbaráttunni virðist vera meiri núna en oft áður. Carlo Ancelotti og hans menn virðast þjást af þynnku frá síðasta tímabili ef mið er tekið af undirbúningsleikjunum.

4-0 tap fyrir AC Milan og tapleikir á heimavelli gegn Liverpool og Napoli náðu að kalla fram áhyggjur hjá stuðningsmönnum Bayern. Eftir leikinn gegn Liverpool reyndi stjórnarformaðurin að slökkva í áhyggjuröddunum og benti á að það væru tvær og hálf vika í tímabilið.

Bayern vann svo þýska Ofurbikarinn í leik gegn bikarmeisturum Borussia Dortmund. Reyndar var það ekki sannfærandi sigur, sjálfsmark frá Dortmund á lokamínútunum og svo sigur í vítaspyrnukeppni.

VAR er mætt
Þýska Bundesligan er fyrst af stóru deildunum í Evrópu til að taka upp myndbandsdómgæslu. Tæknin er mjög umdeild og efasemdir um að hún sé nægilega langt þróuð til að nota hana strax á stóra sviðinu.

Stuðningsmenn óttast að tíminn sem þetta ferli tekur muni ræna frá þeim gleði og spennu. Þá er einnig gagnrýnt að áhorfendur á vellinum munu ekkert sjá hvað er í gangi á meðan dómarinn og sjónvarpsáhorfendur heima í stofu vita alveg hvað er verið að dæma. Ekki kjörstaða.

Stærstu nýju nöfnin
Mesta spennan er klárlega fyrir James Rodriguez sem Bayern München fékk lánaðan frá Real Madrid. Kólumbíumaðurinn tekur þó ekki þátt í fyrstu umferðunum vegna meiðsla.

Dortmund heldur áfram að fá til sín unga leikmenn. Maximilian Philipp (Freiburg) og Mahmoud Dahoud (Gladbach) eru leikmenn sem gætu gert góða hluti.

Stór nöfn horfin á braut
Douglas Costa fór frá Bayern München til Juventus eftir deilur um launamál. Anthony Modeste heillaðist af peningunum í Kína og fór frá Köln. Bayer Leverkusen seldi stjörnuleikmennina Hakan Calhanoglu (Milan) og Javier "Chicharito" Hernandez (West Ham) til að minnka launakostnað á tímabili þar sem liðið er ekki í Evrópukeppni. Ousmane Dembele er enn leikmaður Dortmund en gæti verið seldur til Barcelona á næstu dögum.

Hvaða lið vinnur deildina?
Þrátt fyrir að hafa verið ósannfærandi á undirbúningstímabilinu er erfitt að veðja á móti Bayern. Dortmund er líklegasta liðið til að veita þeim samkeppni en þar er kominn nýr stjóri, Peter Bosz, og það gæti tekið smá tíma fyrir hann að ná sínu handbragði á liðið.

Leikjaálagið gæti komið niður á Leipzig og Hoffenheim sem verða í Evrópu og það gæti gefið Schalke færi á að blanda sér í baráttuna.

Baráttan á botninum
Alfreð Finnbogason og félagar í Augsburg taka líklega þátt í fallbaráttunni. Hamborg, Hannover og Freiburg verða í sama pakka.

Föstudagur 18. ágúst
18:30 Bayern Munchen - Bayer Leverkusen

Laugardagur 19. ágúst
13:30 Hamburg - Augsburg
13:30 Hertha Berlin - Stuttgart
13:30 Hoffenheim - Werder Bremen
13:30 Mainz - Hannover
13:30 Wolfsburg - Dortmund
16:30 Schalke - Leipzig

Sunnudagur 20. ágúst
13:30 Freiburg - Frankfurt
16:00 M'gladbach - Köln
Athugasemdir
banner
banner