banner
   fim 18. september 2014 12:30
Elvar Geir Magnússon
„Álit mitt á Sir Alex rauk upp þegar hann viðurkenndi mistök"
Sir Alex Ferguson og Rio Ferdinand.
Sir Alex Ferguson og Rio Ferdinand.
Mynd: Getty Images
Enskir fjölmiðlar halda áfram að birta brot úr nýjustu bók Rio Ferdinand þar sem hann segir frá lífi sínu hjá Manchester United. Sir Alex Ferguson kemur mikið við sögu og Ferdinand segir frá því hvernig hann hafi höndlað leikmenn og hve stóran hlut sálfræðin spilaði.

Eins og allir vita lenti Ferdinand í deilum við John Terry eftir að Terry var með kynþáttaníð í garð bróður hans, Anton Ferdinand. Rio Ferdinand var ósáttur við viðbrögð „Kick it Out" samtakana sem berst gegn kynþáttafordómum í boltanum.

„Þremur mánuðum eftir dómsmálið varðandi Terry þá var „Kick it Out" með átak þar sem leikmenn klæddust bolum með skilaboðunum „Einn leikur, eitt samfélag". Það var ekki fræðilegur möguleiki að ég væri að fara að taka þátt í því. Samtökin neituðu að mæta í dómshús með okkur og ég ætlaði ekki að taka þátt í þessu. Foreldrar mínir hefðu jafnvel ekki talað við mig ef ég hefði gert það," segir Ferdinand.

Sir Alex Ferguson varð brjálaður. „Hver heldur þú að þú sért? Neitar að klæðast svona bol? Ég sagði fjölmiðlum í gær að þú tækir þátt. Þú áttir að vera í bolnum. Drullaðu þér út og gerðu það sem þú vilt - Hver heldur þú að þú sért?" sagði Ferguson.

Ferdinand svaraði: „Þú spurðir mig aldrei. Ég var aldrei að fara að klæðast þessum bol. Ég sagði þér ekki að fara í viðtal og segja að ég ætlaði að klæðast bolnum."

Ferguson svaraði Ferdinand með þeim orðum að sér væri nóg boðið og hann fengi sekt upp á tveggja vikna laun.

„Daginn eftir fór ég að hitta hann á skrifstofunni. Ég stóð en hann sat. Hann sagði: 'Hlustaðu, ég veit að þetta tengist fjölskyldunni en ég er ósammála því að þú neitir að klæðast bolnum. Þú verður að styðja herferð eins og þessa.'"

„Ég sagði: 'Já en stjóri, þú talaðir aldrei við mig um málið. Þú reyndir aldrei að skilja mína aðstöðu'. Þá kom hann mér á óvart og sagði: 'Ég talaði við konuna mína í gærkvöldi og hún spurði: 'Hefurðu talað við strákinn um málið?' Ég svaraði nei og hún sagði að það væru mín mistök'."

Ferguson játaði mistök sín við Ferdinand.

„Hann sagðist ekki oft viðurkenna mistök og að hann ætlaði ekki að sekta mig. Hann sagði: 'Ég átti að ræða við þig. Það voru mín mistök að gera það ekki og ég verð að horfast í augu við það. Ég er enn á þeirri skoðun að þú áttir að klæðast bolnum en ég ber virðingu fyrir því sem þú gerðir'"

„Ég var svo hrifinn. Virðing mín fyrir honum rauk enn meira upp. Ég tel að hann hafi virt mig aðeins meira því ég fór eftir minni sannfæringu. Jafnvel þó pressan hafi verið mikil að gera annað."
Athugasemdir
banner
banner
banner