Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 18. október 2017 12:18
Elvar Geir Magnússon
Björgvin Stefáns gæti farið í KR
Björgvin hefur raðað inn mörkum fyrir Hauka.
Björgvin hefur raðað inn mörkum fyrir Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Jónsson er orðaður við KR-inga.
Kristinn Jónsson er orðaður við KR-inga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björgvin Stefánsson gæti verið á leið KR. Þessi 22 ára gamli sóknarmaður varð markakóngur í 1. deildinni árið 2015 þegar hann skoraði 20 mörk í 22 leikjum með Haukum.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, viðurkenndi í samtali við Fótbolta.net að nafn Björgvins væri eitt af þeim nöfnum sem væri á blaði hjá KR-ingum sem eru að skoða sín leikmannamál eins og önnur félög.

Í sumar var Björgvin næst markaæstur í deildinni með 14 mörk í 19 leikjum en eftir sumarið tilkynnti hann Haukum að hann stefndi á að spila í Pepsi-deildinni næsta tímabil.

Í fyrra lék hann í Pepsi-deildinni, fyrst með Val þar sem hann fann sig ekki. Á miðju sumri fór hann í Þrótt en liðið féll í Inkasso-deildina og skoraði hann tvö mörk í tíu leikjum.

„Ég tel mig hafa lært mikið af síðasta tímabili í efstu deild og þroskast mikið sem leikmaður á því. Síðast þegar ég lék í efstu deild þá kom ég stuttu fyrir mót og hafði kannski ekki fengið undirbúninginn sem ég þurfti svo ég held að ég eigi meiri möguleika á því að aðlagast getumuninum núna," sagði Björgvin við Fótbolta.net nýlega.

Þegar Fótbolti.net hafði samband við Björgvin í dag sagði hann að ekkert væri frágengið í sínum málum en hann vissi af áhuga frá nokkrum félögum. Hann viðurkenndi að KR væri spennandi kostur ef hann myndi bjóðast.

Kristinn Jónsson orðaður við KR
Annar leikmaður sem hefur verið orðaður við KR er Kristinn Jónsson, bakvörður Breiðabliks. Sagan segir að KR-ingar hafi rætt við hann.

„Það eru ýmis nöfn á blaði hjá okkur og við erum að reyna að púsla saman liði sem getur verið samkeppnishæft næsta sumar," segir Rúnar.

Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, sagði á dögunum að Blikar væru bjartsýnir á að halda Kristni.

Rúnar segir að KR sé í að vinna við að gera nýja samninga við Skúla Jón Friðgeirsson og Óskar Örn Hauksson, auk ungra og efnilegra leikmanna. Þá sé vilji til að halda Beiti Ólafssyni markverði og á dagskránni sé að ræða við hann.

Þegar Rúnar var spurður út í Gary Martin sagði hann að fréttirnar í morgun hefðu komið sér á óvart en ekkert hefði verið rætt um að reyna að fá Englendinginn í KR.

KR hafnaði í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar í sumar og mistókst að ná í Evrópusæti. Rúnar tók við liðinu eftir tímabilið.
Athugasemdir
banner
banner
banner