Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 18. nóvember 2017 13:01
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Gott: Sá ekkert annað í stöðunni en að láta mig hverfa
Ólafur Gottskálksson ræðir um baráttuna við eiturlyfjafíkn
Ólafur Gottskálksson.
Ólafur Gottskálksson.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Þættirnir Markmannshanskarnir hans Alberts Camus í stjórn Guðmundar Bjarnar Þorbjörnssonar hafa vakið mikla athygli. Í þáttunum skoðar hann aðra hlið á íþróttum.

Óhætt er að segja að þættirnir hafi vakið mikla athygli hjá landanum eins og sjá má neðst í fréttinni.

Íþróttamenn sem missa tökin
Í þættinum í morgun ræddi Guðmundur við fyrrum landsliðsmarkvörðinn Ólaf Gottskálksson.

Ólafur lék með ÍA, KR og Keflavík hér á landi, en fór síðan erlendis í atvinnumennskuna þar sem hann spilaði á Bretlandseyjum með Hibernian og Brentford, og síðar Margate og Torquay United.

Ólafur hafði byrjað að fikta við fíkniefni þegar hann lék hér á landi og fór hann í sína fyrstu meðferð 1995 er hann lék með Keflavík. Eftir að hafa farið í meðferð átti hann frábært sumar með Keflavík sem leiddi til þess að hann komst út í atvinnumennsku.

Þorrablót í London
Hann hafði átt góð ár og hafði ekki verið í neyslu í sex ár þegar kom að þorrablóti í London.

„Þar hitti ég mann, sem var ekki úr fótboltanum, hann var úr annarri atvinnugrein, sem ég hafði þekkt mjög vel frá Íslandi og með honum var Englendingur sem hafði það að aðalvinnu að selja eiturlyf. Þarna var ég kominn í blússandi aðstöðu til að komast í eiturlyf að vild. Þarna hafði ég verið edrú í að verða sex ár," sagði Ólafur sem fór á fullt í neyslu eftir þetta afdrífaríka þorrablót.

„Þegar þú fellur sem neytandi þá byrjaður ekkert rólega. Það var farið á fulla ferð strax. Ég var kominn í sterkari efni og efni sem ég kolféll fyrir, sem var kókaín."

„Ég get ekki kennt neinum um nema sjálfum mér en ég hef oft sagt við sjálfan mig, 'þetta helvítis þorrablót'."

Ólafur kom heim í stutta stund og spilaði með Grindavík og Keflavík eftir að hafa meiðst á öxl. Hann ákvað svo að fara aftur út og semja við Torquay United í Englandi.

Þar versnaði ástandið.

„Ég var orðinn svo slæmur þarna. "Dealerinn" minn bjó í London og þá voru keyrðir 500 kílómetrar aðra leiðina til þess að ná sér í efnið, einu sinni, tvisvar í viku," sagði Ólafur.

„Það voru keyrðir 1000 kílómetrar, tvisvar í viku til að ná sér í efnið."

Fór í felur í Amsterdam
Ólafur var í kjölfarið kallaður í lyfjapróf hjá félaginu og að eigin sögn kom það ekki á óvart.

„Ég var kallaður í lyfjapróf og það kom ekki á óvart. Ég var orðinn svo illa farinn. Ég skil eiginlega ekki hvernig ég gat staðið í þessu sem ég stóð í, að mæta á æfingar, mæta á leiki og performa."

Ólafur ákvað að láta sig hverfa í stað þess að fara í lyfjapróf.

„Það var agalegt högg að vera kallaður í lyfjapróf, mikil skömm. Ég sá ekkert annað í stöðunni en að láta mig hverfa. Ég fór til Hollands, ég tók næstu vel til Amsterdam og var þar í viku, 10 daga."

„Maður var auglýstur týndur í blöðunum og ég gerði mér enga grein fyrir því hvað maður var að gera öllu sínu fólki, maður hugsar bara um rassgatið á sjálfum sér þegar maður er í neyslu."

„Púkinn á öxlinni"
Ólafur fór í meðferð í Englandi og sneri svo aftur heim til Íslands. Árið 2009 kom svo annað bakslag í líf Ólafs. Hann var dæmdur 12 mánaða fangelsi fyrir húsbrot, líkamsárás og rán eftir að hafa farið inn í hús í Keflavík með strák sem hann þekkti lítið að sækja tölvu sem hann vissi ekki sjálfur hver ætti.

Hann sat inni í sjö mánuði, en eftir að hann losnaði úr fangelsi tókst honum að vera edrú í eitt og hálft ár, „hann náði einu og hálfu ári í góða lífinu," segir Guðmundur Björn.

„Svo kemur púkinn á öxlina," segir Ólafur. „Ég byrja að fikta en geri þetta svolítið öðruvísi, ég er ekki í sambandi við neitt fólk og er einn í minni neyslu. Það var amfetamín og kannabis."

Á síðasta ári, 2016, kemst það svo í fréttir þegar Ólafur lendir í eltingarleik við lögregluna með fimm ára son sinn í aftursætinu. Ólafur var ekki edrú þegar hann settist undir stýri.

„Þá kom þess bráðsnjalla hugmynd að stoppa ekki fyrir þeim, heldur að fara heim aftur. Þetta var háskaleg eftirför að leikskólanum. Þeir keyrðu fjórum sinnum inn í hliðarnar á bílnum á meðan fimm ára sonur minn var í bílnum. Ég mun aldrei getað fattað þá ákvörðun lögreglunnar að gera þetta."

„Fyrir mér var þetta spil algjörlega búið þarna. Þó mér finnst lögreglan hafa staðið illa að málum í þessu, þá á ég sökina alla og verð að kyngja því að ég tók kolranga ákvörðun."

Eftir þetta hafði Ólafur samband við gamla landsliðsfélaga og þeir hjálpuðu honum.

„Ég hringdi í Togga (Þorgrím Þráinsson) og Guðna Bergs og sagði þeim hvað hafði átt sér stað. Þeir hjálpuðu mér að komast inn í meðferð þótt það hafi verið margra mánaða bið. Gummi Hreiðars var líka komin inn í þetta og þeir settu allt af stað. Ég var kominn inn í meðferð eftir tvo daga," sagði Ólafur.

„Lífið er upp og niður, en það hefur gengið mjög vel," segir Ólafur um lífið eftir að hann kom út úr meðferð.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni með því að smella hér

Sjá einnig:
Óli Gott á leið í meðferð - „Ekki hæfur til að sjá um börnin mín"









Athugasemdir
banner
banner
banner