fös 19. janúar 2018 22:38
Ingólfur Stefánsson
Carrick leggur skóna á hilluna - Fær þjálfarastarf hjá United
Mynd: Getty Images
Michael Carrick miðjumaður Manchester United mun leggja skóna á hilluna í lok tímabilsins. Leikmaðurinn mun taka að sér þjálfarastöðu innan félagsins.

Carrick hefur ekki leikið með United síðan í september eftir að hann fann fyrir óreglulegum hjartslætti. Jose Mourinho þjálfari liðsins segir að þetta sé réttur tímapunktur fyrir leikmanninn til þess að hætta.

„Hann hefur verið frá í nokkra mánuði og hefur ekki einu sinni æft. Hann er nýbyrjaður að æfa og er mikilvægur leikmaður fyrir okkur."

„Ég held þetta sé góð ákvörðun fyrir liðið og góð ákvörðun fyrir hann að hætta í fótbolta án þess að vera alvarlega meiddur eða að glíma við einhver vandræði."

Carrick sem er 36 ára gamall hefur leikið með United frá árinu 2006. Þá gekk hann til liðsins frá Tottenham fyrir 14 milljónir punda. Hann hefur leikið 314 leiki fyrir liðið á ferlinum og skorað 17 mörk.

Hann hefur unnið ensku úrvalsdeildina fimm sinnum með liðinu ásamt því að sigra Meistaradeild Evrópu, Evrópudeildina og Heimsmeistarakeppni félagsliða.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner