banner
   fös 19. janúar 2018 14:03
Elvar Geir Magnússon
Nantes birtir myndir af Kolbeini á séræfingu
Kolbeinn á æfingu hjá Nantes.
Kolbeinn á æfingu hjá Nantes.
Mynd: Nantes
Sóknarmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson fór í læknisskoðun hjá Nantes í vikunni en hann hefur verið frá vegna hnémeiðsla síðan 2016.

Eitthvað er í að Kolbeinn geti æft með samherjum sínum en hann er nú í höndum Andréa Azzalin, styrktarþjálfara Nantes, og er í séræfingum. Nantes birti í dag nýjar myndir af honum á æfingu.

Claudio Ranieri, þjálfari Nantes, hefur sagt að dyrnar standi opnar fyrir Kolbeini, sem er 27 ára, ef hann leggur sig allan fram í að koma til baka úr meiðslunum.

„Ef hann vill svitna og berjast fyrir sæti sínu þá standa dyrnar opnar. Hann býr yfir mikilli reynslu," sagði Ranieri í dag.

Í desember var Kolbeinn í endurhæfingu hjá hinni þekktu stöð Aspetar í Katar. Hann hefur skorað 22 mörk í 44 leikjum á ferli sínum með íslenska landsliðinu og hann heldur ennþá í vonina um að ná HM í Rússlandi í sumar.

„Það er draumur minn að fara á HM eins og hjá öllum öðrum fótboltamönnum. Ég kem hingað með það í huga. Vonandi get ég tekið þátt þar. Það er ennþá langt í land en ég er bjartsýnn á að ég geti tekið skrefið þangað," sagði Kolbeinn nýlega.

Franskir fjölmiðlar vita ekki hvenær Kolbeinn ætti að geta snúið aftur á fótboltavöllinn en í desember var haft eftir Andra Sigþórssyni, bróður hans og umboðsmanni, að stefnan væri sett á febrúar.



Athugasemdir
banner
banner
banner