banner
   fös 19. janúar 2018 09:00
Magnús Már Einarsson
Rúnar Már: Eitthvað sem ég þurfti nauðsynlega að gera
Rúnar Már Sigurjónsson.
Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar í leik með Grasshoppers.
Rúnar í leik með Grasshoppers.
Mynd: Getty Images
„Það var eitthvað sem ég þurfti nauðsynlega að gera," sagði Rúnar Már Sigurjónsson við Fótbolta.net aðspurður af hverju hann fór frá svissneska félaginu Grasshoppers til keppinautana í St. Gallen á láni.

Fyrrum svissneski landsliðsmaðurinn Murat Yakin tók við þjálfun Grasshoppers snemma á tímabilinu og í kjölfarið datt Rúnar út úr liðinu.

„Ég var búinn að vera lykilmaður hjá Grasshoppers hjá tveimur mismunandi þjálfurum og með mikla ábyrgð en þegar núverandi þjálfari tók við í september síðastliðnum þá kom það í ljós strax frá fyrsta degi að ég væri ekki inn í myndinni. Þannig það var ekkert annað í stöðunni fyrir mig en að skipta um lið núna þegar svona stórt ár er framundan."

Sænsk félög sýndu áhuga
Fleiri félög sýndu Rúnari áhuga en hann var meðal annars orðaður við sænsku meistarana í Malmö.

„Það voru nokkur félög héðan og þaðan, mörg frá Svíþjóð sérstaklega. En ég var ekki tilbúinn að binda mig til 3-4 ára og vildi spila í eins sterkri deild og möguleiki er á með það í huga hvað er framundan á árinu."

Heldur í bjartsýnina fyrir HM
Rúnar er í baráttu um sæti í íslenska landsliðshópnum fyrir HM í sumar. Er hann bjartsýnn á að ná sæti í hópnum? „Bæði og. Auðvitað heldur maður alltaf í bjartsýnina og er jákvæður gagnvart því. Þetta snýst bara alltaf um daginn í dag að gera sitt besta og halda sér heilum. Ef ég geri það og næ því að þá á ég fína möguleika á að fara á HM tel ég."

St. Gallen er þremur stigum á undan Grasshoppers í 4. sæti deildarinnar en Rúnar er spenntur fyrir nýju félagi.

„Mér líst bara vel á það. Fyrstu kynni eru bara jákvæð. Eftir læknisskoðun flaug ég beint til Spánar þar sem þeir eru í æfingaferð og móttökurnar verið góðar þannig ég er bara bjartsýnn á framhaldið."

Spilar líklega ekki fleiri leiki með Grasshoppers
Rúnar verður á láni hjá St. Gallen fram á sumar en hann býst við að hafa spilað sinn síðasta leik með Grasshoppers.

„Eins og staðan er núna þá býst ég við því en í fótbolta eins og svo mörgu öðru að þá á maður aldrei að segja aldrei. Meðan að núverandi þjálfari er þá tel ég yfirgnæfandi líkur á því að ég spili ekki fyrir félagið. En þegar lánssamningurinn er búinn hjá St. Gallen í sumar þá á ég ár eftir af samningnum við Grasshoppers en ég býst við að fara alfarið frá þeim í sumar," sagði Rúnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner