Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 19. apríl 2017 15:00
Magnús Már Einarsson
Freysi: Þetta er lyginni líkast
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Getty Images
„Þetta er auðvitað sorglegt og mikið áfall fyrir okkur, landsliðið, Val og fyrst og fremst leikmanninn sjálfan," sagði Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kvenna í dag aðspurður út í meiðsli Elísu Viðarsdóttur.

Elísa er með slitið krossband og verður ekki með íslenska landsliðinu á EM í sumar. Dóra María Lárusdóttir og Sandra María Jessen slitu einnig krossband á Algarve mótinu í janúar.

„Maður er hálf orðlaus yfir þessu. Þetta eru svo miklar tilviljanir hvernig þetta gerist og ég er fyrst og fremst sár og svekktur fyrir hönd leikmannanna. Þeir hafa verið að æfa vel og það hefur verið mikil tilhlökkun að komast inn á stórmót en svo er það tekið frá þeim á svipstundu," sagði Freyr.

Íslenska landsliðið hefur leikið sex leiki á þessu ári en Dóra, Elísa og Sandra meiddust allar í landsleik. Samtals eru þetta því þrjú alvarleg meiðsli í sex landsleikjum.

„Þetta er lyginni líkast. Maður fór af stað í ákveðna vegferð með ákveðnar væntingar og það er ekki í plönunum að lenda í svona áföllum."

„Það er eitt sem við getum tekið út úr þessu og það er það að þetta hlýtur að styrkja okkur sem heild þannig að við stöndum þétt saman og tökumst á við vandamálið í sameiningu. Ég hef það mikla trú á samheldni hópsins að ég held að þetta þétti okkur ennþá meira saman."

„Þetta eru leikmenn sem ætluðu sér að taka þátt á Evrópumótinu og ég hafði plön um að þeir yrðu með þar. Það er missir af þeim innan sem utan vallar. Þetta eru stórir karakterar og miklir keppnismenn sem við erum að missa og ég er mjög svekktur fyrir þeirra hönd."


Sandra María sleit fremra krossband en þau meiðsli þýða styttri fjarveru en hjá Dóru og Elísu. Sandra gæti því ennþá náð EM.

„Sandra á möguleika og það er von. Það styttist samt alltaf í þetta og þetta snýst ekki bara um að komast á lappir heldur líka að koma í leikform og ná takti. Það er hægara sagt en gert að koma til baka eftir svona meiðsli en ég veit að það gengur mjög vel hjá Söndru Maríu. Maður bara þorir ekki að gera neinar væntingar. Við leyfum tímanum að líða og leikmaðurinn hugsar vel um sig," sagði Freyr að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner