mið 19. apríl 2017 10:30
Elvar Geir Magnússon
Terry: Ekki hægt að færa ást mína á ykkur í orð
Terry er gríðarlega sigursæll.
Terry er gríðarlega sigursæll.
Mynd: Getty Images
Þessir tveir áttu magnaða tíma saman.
Þessir tveir áttu magnaða tíma saman.
Mynd: Getty Images
John Terry er besti fyrirliði í sögu Chelsea en hann hefur gefið það út að eftir tímabilið muni hann yfirgefa félagið.

Hann hefur nú skrifað opið bréf til stuðningsmanna Chelsea þar sem hann lýsir „erfiðustu ákvörðun lífs síns" og er fullur þakklætis.

Terry er orðinn 36 ára en á 19 árum sínum hjá Chelsea hefur hann fjórum sinnum orðið Englandsmeistari og unnið Meistaradeildina.

„Ég mun aldrei geta fært í orð þá ást sem ég hef á ykkur stuðningsmönnum. Að bera bandið og vera fyrirliði ykkar hefur án nokkurs vafa verið það afrek sem ég er stoltastur af í lífinu," skrifar Terry og segist hlakka til að snúa aftur til Chelsea á einhverjum tímapunkti á ferlinum.

Terry tekur fram að ferðalaginu sé ekki lokið og að hann ætli að hjálpa Chelsea að landa Englandsmeistaratitlinum á þessu tímabili. Terry á möguleika á að kveðja með fimmta Englandsmeistaratitlinum og bæta einnig við sjötta FA-bikarnum á ferlinum.

Terry hefur leikið 713 leiki fyrir Chelsea síðan hann lék sinn fyrsta leik í deildabikarnum gegn Aston Villa 28. október 1998. Hann hefur borið fyrirliðabandið hjá Chelsea í 578 leikjum sem er félagsmet.

Hann er einn besti miðvörður sem leikið hefur í ensku úrvalsdeildinni en á þessu tímabili hefur hann aðeins leikið fimm deildarleiki. Meiðsli og breyting á leikkerfi hafa haft sín áhrif á hlutverk hans.

Með brotthvarfi Terry hverfur síðasti kyndilberi Chelsea á því tímaskeiði sem hófst með ráðningu Jose Mourinho 2004 og skilaði sér í fyrsta titli félagsins í 50 ár á fyrsta tímabili portúgalska stjórans.

Búningsklefi Chelsea var pakkfullur af sterkum karakterum á þessum tíma, mönnum eins og Petr Cech, Ashley Cole, Frank Lampard og Didier Drogba sem allir eiga stóra kafla í sögubókum félagsins.

Þó Terry yfirgefi Chelsea fara skórnir ekki strax á hilluna en talið er að næsta skref á hans ferli verði í Bandaríkjunum eða Kína.

💙 @chelseafc

A post shared by John Terry (@johnterry.26) on



Athugasemdir
banner