banner
   fös 19. maí 2017 22:30
Brynjar Ingi Erluson
Tottenham gæti reynt að kaupa Gylfa aftur
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham Hotspur gæti reynt að fá Gylfa Þór Sigurðsson aftur til félagsins en hann er nú á mála hjá Swansea City. Það er Daily Mail sem greinir frá.

Gylfi, sem er 27 ára gamall, hefur verið magnaður með Swansea á þessari leiktíð, en hann hefur gert níu mörk og lagt upp önnur þrettán í deildinni.

Hann hefur þá hlaupið mest allra leikmanna í deildinni en hann verður afar eftirsóttur biti í sumar.

Everton er sagt hafa mestan áhuga á að fá hann en félagið undirbýr sig fyrir að missa Ross Barkley sem virðist ekki ætla að undirrita nýjan samning.

Daily Mail greinir hins vegar frá því að Tottenham Hotspur sé komið inn í myndina en félagið gæti reynt að kaupa hann aftur til félagsins og þá á 25 milljónir punda.

Gylfi kom til Tottenham frá Hoffenheim á tæplega 9 milljónir punda en hann var einmitt á láni hjá Swansea síðari hluta ársins 2012 og stóð sig frábærlega.

Íslenski miðjumaðurinn náði sér ekki á strik hjá Tottenham og virtist portúgalski stjórinn Andre Villas-Boas ekki vita hverjir hans helstu eiginleikar voru. Gylfi var látinn fara árið 2014 og hefur síðan þá verið lykilmaður í Swansea.

Mauricio Pochettino tók við Tottenham sumarið sem Gylfi fór en hann kom eftir að Gylfi var farinn til Swansea. Hann sagði í desember að Tottenham hefði aldrei átt að láta Gylfa fara.
Athugasemdir
banner
banner
banner