lau 19. maí 2018 22:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gunnar Jarl: Þáttur leikmanna er hellingur í þessu
Tobias Thomsen.
Tobias Thomsen.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mörkin sem Valur skoraði gegn Stjörnunni í gær voru mjög umtöluð.

Fyrra markið kom úr vítaspyrnu eftir að Tobias Thomsen féll í teignum. Pétur Guðmundsson, dómari, benti á punktinn en Stjörnumenn voru æfir vegna dómsins.

Eftir leik sagði Heiðar Ægisson, leikmaður Stjörnunnar, þetta.

Thomsen gerðist þarna sekur um leikaraskap. Hann dýfði sér fyrir vítaspyrnunni.

Gunnar Jarl Jónsson, sem hefur verið besti dómari landsins síðustu ár, er sérfræðingur í Pepsi-mökunum og hann var í setti í þætti kvöldsins. Hann tjáði sig um dómgæsluna á Origo-vellinum í gær.

„Í rauninni sem gerist þarna er að Pétur (dómari) hefur mjög flatt sjónarhorn. Ef hann er lengra til vinstri þá er hann kominn með allt annan vinkil," sagði Gunnar Jarl sem kom þó Pétri til varnar.

„Þetta er klár dýfa en við erum að gleyma einu. Við erum alltaf að tala um dómara í þessu tilfelli, en það má ekki gleyma leikþætti leikmanna. Þáttur leikmanna er hellingur í þessu."

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins, var með Gunnari í setti. Hann vill að leikmenn sem dýfa sér verði dæmdir í bann, þannig verður leikaraskap útrýmt.

„Hendin þarf að vera viljandi"
Í öðru marki Valsmanna fór boltinn í hendi Hauks Páls Sigurðssonar áður en Sigurður Egill Lárusson skoraði.

Það sem Haukur Páll sagði eftir leik má sjá hér.

Um það atvik sagði Gunnar Jarl:

„Stjörnumenn tala um hendi og ég er búinn að rýna mikið í þetta. Það er rosa erfitt að sjá það. Það er spurning hvort hann skófli honum, en hendin þarf að vera viljandi. Ef Haukur lendir þannig að hann skófli boltanum, þá er það ekki hendi."

Haukur Páll sagði í viðtali að ekki hafi verið um viljaverk að ræða. Ef hægt er að trúa því, þá var það ekki hendi.
Athugasemdir
banner
banner
banner