Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mán 19. júní 2017 10:45
Arnar Daði Arnarsson
Best í 8. umferð: Einhverjir efuðust um standið á mér
Sandra María Jessen (Þór/KA)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Alveg frá því að ég meiddist þann 1. mars hef ég ásamt mjög góðu fólki, unnið hörðum höndum og lagt mikið á mig til að komast á þann stað sem ég er komin á í dag. Það er því mjög ánægjulegt og gott fyrir sjálfstraustið að upplifa jafn góðan leik og við í Þór/KA áttum á móti Grindavík," sagði Sandra María Jessen leikmaður Þórs/KA.

Sandra skoraði þrennu og lagði upp eitt mark í 5-0 sigri gegn Grindavík í 8. umferð Pepsi-deildar kvenna er leikmaður umferðarinnar.

Heppilegt að mæta þeim bestu fyrst
Eftir átta umferðir, er Þór/KA á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og með markatöluna 21-3. Hvernig getur Sandra María lýst því sem hefur átt sér stað fyrir norðan í byrjun sumars?

„Ég tel hafa verið heppilegt að hafa fengið tvö af sterkustu liðum landsins (Valur og Breiðablik) á móti okkur í fyrstu leikjunum. Með því að sigra þá leiki hvarf allur efi úr okkar huga og við sönnuðum fyrir okkur sjálfum að okkur væru allir vegir færir."

„Í framhaldi af því var alltaf ákveðið „momentum'' með okkur, þar sem liðsheild og vinnusemi hefur einkennt okkar leiki og skilað töluvert af stigum. Við það öðlast liðið sjálfstraust sem gefur hæfileikunum aukið tækifæri til að blómstra, eins og gerðist núna á móti Grindavík," sagði Sandra María Jessen sem er þrátt fyrir ungan aldur að leika sitt sjöunda tímabil með meistaraflokki, þrátt fyrir að hafa misst af öllu mótinu 2014 vegna meiðsla.

Fara í alla leiki til að vinna þá
Þórs/KA liðið er ekki mikið breytt frá því í fyrra, þar sem liðið sigraði níu leiki allt tímabilið.

„Það hefur orðið hugarfarsbreyting. Donni tók við góðu búi af Jóa, sem hafði á undanförnum árum náð að byggja upp flott fótboltalið með öll grunnatriðin á hreinu. Ofan á allt það góða sem fyrir var bætti Donni því við að festa uppí hausinn á okkur öllum að við værum sigurvegarar, við hefðum alla burði til þess að verða Íslandsmeistarar og það ætluðum við okkur í sameiningu.''

Framundan eru þrír útileikir hjá Þór/KA gegn FH, Val og Breiðablik. Með hagstæðum úrslitum í þeim leikjum gæti Þór/KA farið langleiðina með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn

„Skiljanlega er hægt að túlka það þannig að þessir leikir séu erfiðari en aðrir þar sem þeir eru gegn liðum í efri hluta deildarinnar. Samt sem áður breytir það engu fyrir okkur, okkar undirbúning og hvernig við nálgumst leikinn. Í öllum leikjum Íslandsmótsins eru þrjú stig í boði og þessir leikir eru engin undantekning, við förum í þá til að vinna þá," sagði Sandra María og það greinilega skín af henni sjálfstraustið.

Formið er orðið nægilega gott
Á fimmtudaginn tilkynnir Freyr Alexandersson lokahópinn fyrir EM. Sandra María var í landsliðshópnum í öllum leikjum undankeppninnar en varð fyrir meiðslum á Algarve-mótinu og hefur verið að koma sér meira og meira inn á fótboltavöllinn síðan þá.

Hún segist að sjálfsögðu gera sér vonir um að komast á EM. „Ég er búin að vera hluti af þessum frábæra hóp í fimm ár og var í hóp í öllum leikjum undankeppninnar."

„Einhverjir efuðust um að ég yrði komin í nægilega gott stand eftir meiðslin sem ég varð fyrir á Algarve-mótinu, en sú staðreynd að ég sé búin að spila 90 mínútur síðustu tvo leiki fyrir Þór/KA tel ég sýna fram á að formið sé orðið nægilega gott. Auk þess hef ég heilan mánuð til þess að vinna enn betur úr meiðslunum og komast í enn betra stand. Engu að síður geri ég mér fulla grein fyrir því að það eru margar hæfileikaríkar stelpur að berjast um nokkur sæti í hópnum og því er alls ekkert gefið í þessu," sagði fyrirliði Þórs/KA sem segir skrokkinn vera orðin góðan.

„Ég finn ekki fyrir neinu sem að hamlar mér í boltanum. Ég fer óhikað í allar tæklingar og geri allt af fullum krafti, líkt og ég gerði fyrir meiðslin. Undanfarnar vikur hef ég mikið verið að vinna með úthaldið og finn að ég er svo gott sem komin í mitt gamla form," sagði Sandra María Jessen að lokum.

Domino's gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna í sumar fær pizzuveislu frá Domino's.

Sjá einnig:
Leikmaður 7. umferðar - Sandra Mayor Gutierrez (Þór/KA)
Leikmaður 6. umferðar - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 5. umferðar - Rut Kristjánsdóttir (ÍBV)
Leikmaður 4. umferðar - Agla María Albertsdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 3. umferðar - Svava Rós Guðmundsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 2. umferðar - Sandra Mayor Gutierrez (Þór/KA)
Leikmaður 1. umferðar - Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan)
Athugasemdir
banner
banner
banner