þri 19. júní 2018 08:45
Fótbolti.net
„Rúrik veit hvað allir eru hrifnir af honum"
Icelandair
Rúrik á æfingu.
Rúrik á æfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið hefur vakið heimsathygli eftir 1-1 jafnteflið við Argentínu á HM um síðustu helgi. Kári Árnason, varnarmaður landsliðsins, segir að leikmenn viti vel af athyglinni.

„Ég ætla ekki að ljúga því að við séum 'clueless' uppi á hóteli og enginn sé að fylgjast með," segir Kári.

„Það lesa þetta allir og vita allir hvað er í gangi. Sérstaklega Rúrik, hann veit hvað allir eru hrifnir af honum. Ég er ánægður fyrir hans hönd að einhver sé að fylgjast með honum."

Rúrik er kominn með yfir 500 þúsund fylgjendur á Instagram og fjölgar þeim ört. Þar er kvenfólk í miklum meirihluta! Fleiri leikmenn eru að fá mikla athygli.

„Þetta er frábært. Ég er ánægður fyrir hönd þeirra stráka sem fá mestu athyglina og vonandi ná þeir að gera eitthvað gott úr þessu. Þetta er þannig heimur að því meiri athygli sem er á þér því meiri líkur eru á að þú fáir stórt lið. Vonandi ná þeir að gera eitthvað úr þessu."

Sjálfur hefur Kári opnað Instagram aðgang sinn fyrir almenningi. „Maður þarf að taka þátt í þessu. Ég er kominn með 500. Markmiðið er að ná 1000 fyrir lok móts," segir Kári léttur.

Birkir Már Sævarsson segir að Rúrik fái góðan skammt af skotum frá liðsfélögum sínum.

„Það eru alltaf eiginlega sömu strákarnir í liðinu sem eru með 'banter' og hann fær alveg sinn skerf núna frá þessum mönnum! Hann er bara ánægður með þetta held ég og allir sjokkeraðir yfir þessum fjölda," segir Birkir.

Hörður Björgvin Magnússon segir að Rúrik hafi fengið of marga fylgjendur.

„Hann er að búinn að fá nóg umtal. Hann er búinn að fá alltof marga fylgjendur. Hann gæti kannski deilt þessu aðeins á okkur strákana, okkur vantar smá. Vonandi kemur það bara eftir næsta leik, þá fer Rúrik fyrir aftan okkur og við fáum smá athygli," segir Hörður Björgvin Magnússon, liðsfélagi Rúriks í landsliðinu aðspurður út í þetta allt saman.

Veðmálasíðan Coolbet hefur sett inn veðmál þar sem hægt er að setja pening á það hvort Rúrik verði kominn með eina milljón fylgjendur í lok Heimsmeistaramótsins.

„Þetta er mjög gott bet, hver er stuðullinn á þetta? Það er um að gera að henda smá á þetta. Það er aldrei að vita, honum gengur vel núna. Hann er kominn upp í 500 þúsund eftir fjóra daga, það er ennþá tvær vikur eftir, við getum alveg séð milljón koma," segir Hörður.
Athugasemdir
banner
banner