banner
   þri 19. júlí 2016 11:25
Magnús Már Einarsson
Jóhann Berg til Burnley (Staðfest)
Mynd: Burnley
Burnley hefur keypt íslenska landsliðsmanninn Jóhann Berg Guðmundsson í sínar raðir frá Charlton.

Jóhann skrifaði undir þriggja ára samning við Burnley með möguleika á árs framlengingu.

Burnley endurheimti sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni í vor og Jóhann fær nú tækifæri til að spila á meðal þeirra bestu á Englandi.

Jóhann hefur undanfarin tvö ár spilað með Charlton í Championship deildinni en hann var besti maður liðsins á síðasta tímabili.

„Það er frábært að vera hér. Þetta er félag sem sýndi mikinn áhuga á mér og ég er mjög ánægður með að koma hingað og spila með Burnley," sagði Jóhann Berg.

„Þetta virðist vera fjölskyldufélag og allir eru nánir hér. Andrúmsloftið í kringum félagið er stórkostlegt ég sá hversu gott félag þetta er þegar ég spilaði hér á síðasta tímabili. Eftir það vildi ég ganga til liðs við félagið."

Sean Dyche, stjóri Burnley, er í skýjunum með að hafa klófest Jóhann. „Jóhann er hæfileikaríkur leikmaður sem sýndi gæði á síðasta tímabili þrátt fyrir erfiða tíma hjá Charlton," sagði Dyche.

„Það hjálpar að sjá leikmann spila á EM á meðal þeirra bestu og hann stóð sig vel þar. Við sáum þá að þetta væru góð kaup fyrir félagið og við hlökkum til að vinna með honum."
Athugasemdir
banner
banner
banner