Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 19. október 2017 14:17
Mist Rúnarsdóttir
Wiesbaden
Steffi Jones: Erfitt að mæta Söru Björk, Dagnýju og Fanndísi
Steffi Jones á fréttamannafundi í dag.
Steffi Jones á fréttamannafundi í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Þjóðverjar óttast Söru Björk fyrir leikinn á morgun.
Þjóðverjar óttast Söru Björk fyrir leikinn á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við sáum íslenska liðið á Evrópumótinu og það er mjög þétt og það er erfitt að spila á móti þeim," sagði Steffi Jones landsliðsþjálfari Þýskalands á fréttamannafundi rétt í þessu en liðið mætir Íslandi í undankeppni Heimsmeistaramóts kvenna 2019 á morgun. Leikið er í Wiesbaden í Þýskalandi og leikurinn hefst 14:00 að íslenskum tíma í beinni á RÚV.

„Það eru þrír leikmenn sem við tókum eftir. Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir sem eru sterkir og hraðir leikmenn. Það verður erfitt fyrir okkur að mæta þeim og við búumst við erfiðum leik."

Þýska liðið er talið eitt af bestu kvennaliðum Heims en hvernig leik má búast við á morgun?

„Þetta verður hörku barátta en ég mun ekki segja þér hvernig við ætlum að spila gegn þeim því við viljum vinna og því ekki gefa of mikið upp. Við berum samt mikla virðingu fyrir íslenska liðinu. Þetta er sterkt lið og þær hafa sýnt að þær hræðast okkur ekkert. Ég veit það og við erum einbeittar. Ísland er með þrjá framherja og mun sækja á okkur. Við erum undir það búnar og ég segi ekki meira."

Jones var á fréttamannafundinum í dag spurð út í fréttir þess efnis að hún hafi sagt Ísland sterkasta mótherja Þýskalands í riðlinum.

„Já, það er rétt. Þær unnu leikinn sinn við Færeyjar 8-0 og ég veit að þetta verður alltaf erfiður leikur. Þær eru með sterka leikmenn, góða skalla og mikinn hraða. Þetta er sterkasta liðið að mínu áliti."

Hver er staðan á þýska hópnum?

„Það vantar 10 leikmenn í hópinn minn en það eru líka leikmenn að koma til baka. Við erum samt með gott lið og stóran hóp leikmanna til að velja úr. Við erum ekki að hugsa um leikmennina sem vantar heldur þá sem við erum með hérna. Þær eru nógu sterkar og við vitum vel hvað við þurfum að gera á morgun."
Athugasemdir
banner
banner