Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 20. febrúar 2017 11:47
Elvar Geir Magnússon
David Villa nappaður af myndbandstækninni
Atburðarásin tók hátt í fjórar mínútur.
Atburðarásin tók hátt í fjórar mínútur.
Mynd: Samsett
David Villa, fyrrum leikmaður Barcelona, var nappaður af myndbandstækninni í vináttuleik með New York City gegn Houston Dynamo í Bandaríkjunum.

Eftir átök við varnarmann í teignum dæmdi dómarinn upphaflega brot á Villa og gaf honum gult spjald, Houston Dynamo fékk aukaspyrnu.

Þegar leikur var að fara af stað á ný flautaði dómarinn skyndilega og gaf kassalaga merki með höndunum. Hann hafði fengið upplýsingar frá myndbandsdómara um að atvikið þyrfti að skoða nánar.

Dómarinn hljóp þá að hliðarlínunni og skoðaði atvikið á skjá. Þar sá hann greinilega að Villa sló andstæðing sinn, AJ DeLaGarza, í andlitið.

Dómarinn bað þá Villa um að koma til sín og gaf aftur kassalaga merki áður en hann lyfti upp rauða spjaldinu.

Villa fékk brottvísunina sem hann átti skilið en þessi atburðarás tók sinn tíma og leikurinn var ekki í gangi í hátt í fjórar mínútur samfleytt. Líklegt er að tæknin þurfi að þróast meira áður en hún verður tekin upp í stærstu deildum Evrópu.

Staðan var 1-1 þegar rauða spjaldið fór á loft (Villa með mark New York) en Houston nýtti sér liðsmuninn og vann 2-1.


Athugasemdir
banner
banner
banner