Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 20. febrúar 2017 14:10
Elvar Geir Magnússon
Diego Jóhannesson kominn á fulla ferð á Spáni
Diego hefur verið í byrjunarliði Oviedo í síðustu fjórum leikjum.
Diego hefur verið í byrjunarliði Oviedo í síðustu fjórum leikjum.
Mynd: Getty Images
Hægri bakvörðurinn Diego Jóhannesson hefur lítið sem ekkert verið í fréttum á Íslandi á þessu tímabili en í janúar í fyrra lék hann sinn fyrsta landsleik (og eina til þessa) fyrir íslenska landsliðið þegar leikið var gegn Bandaríkjunum.

Diego, sem er 23 ára, er nýbyrjaður að spila á þessu tímabili en hann hafði ekkert komið við sögu hjá liði sínu, Real Oviedo á Spáni, þegar hann meiddist á ökkla á æfingu í lok október á síðasta ári.

Hann er nú mættur til baka og hefur verið í byrjunarliði Real Oviedo í síðustu fjórum leikjum liðsins í spænsku B-deildinni. Það eru hans einu leikir á tímabilinu.

Liðið hefur unnið þrjá af þeim fjórum leikjum sem Diego hefur spilað og er í fimmta sæti deildarinnar en það er umspilssæti um að komast upp í La Liga. Oviedo er átta stigum frá öðru sætinu sem gefur beint sæti í efstu deild.

Þess má geta að þjálfari Oviedo er goðsögnin Fernando Hierro sem lék með spænska landsliðinu og Real Madrid og vann fjölda titla.

Diego kom fyrst fram á sjónarsviðið í viðtali við Fótbolta.net þar sem hann sagðist eiga sér þann draum að spila fyrir Ísland. Jón Már Jóhannesson, faðir Diego, er frá Íslandi.

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari sagði á fréttamannafundi í mars í fyrra að Diego gæti orðið framtíðarmaður í íslenska landsliðinu en tungumálaörðugleikar væru að setja strik í reikninginn.

„Það er mjög erfitt að kynnast leikmanni sem talar ekki íslensku og talar lélega ensku. Ef þú berð hann saman við íslenska leikmenn þá er hann nokkuð góður. Hann er frekar góður með boltann en það er stórt skref að koma í lið og kunna ekki tungumálið," sagði Heimir.

Diego hefur ekki verið valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir mótsleik en næsta verkefni er útileikur gegn Kosóvó sem fer fram í Albaníu þann 24. mars. Nokkrum dögum síðar verður svo leikinn vináttulandsleikur gegn Írlandi í Dublin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner