mán 20. febrúar 2017 18:00
Magnús Már Einarsson
Man City mætir markahæsta liði Evrópu
Falcao hefur skorað 21 mark af 107 mörkum Monaco á tímabilinu.
Falcao hefur skorað 21 mark af 107 mörkum Monaco á tímabilinu.
Mynd: Getty Images
Manchester City mætir Monaco í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld klukkan 19:45. Ljóst er að varnarmenn City þurfa að vera klárir í slaginn því sóknarleikur Monaco hefur verið frábær á þessu tímabili.

Monaco hefur skorað 107 mörk í öllum keppnum en ekkert lið í efstu deildum Evrópu hefur skorað fleiri mörk. 76 af mörkunum hafa komið í frönsku úrvalsdeildinni þar sem liðið situr á toppnum, þremur stigum á undan stórliði PSG.

Leonardo Jardim, frá Portúgal, er þjálfari Monaco og hann hefur látið sína menn spila gríðarlega skemmtilegan bolta í vetur.

Jardim stillir upp í 4-4-2 en kantmennirnir Bernardo Silva og Lemar hafa leyfi til að fara inn á miðjuna eins mikið og þeir vilja. Silva er sérstaklega spennandi leikmaður en mörg stórlið í Evrópu eru að fylgjast með honum.

Í fremstu víglínu er það svo Radamel Falcao sem dregur vagninn. Hinn 31 árs gamli Falcao er kominn í sitt gamla form en hann hefur skorað 21 mark í öllum keppnum á tímabilinu. Falcao skoraði lítið á láni hjá Manchester United og Chelsea undanfarin tvö tímabil en Kolumbíumaðurinn kann heldur betur að skora mörk í treyju Monaco.

Á þessu tímabili hefur Monaco einu sinni skorað sjö mörk í leik, tvisvar sex mörk og þrívegis hefur liðið skorað fimm mörk. Manchester City þarf því að passa vel upp á varnarleikinn á morgun.

„Þeir myndu skora jafnvel þó að þeir þyrftu að spila með bundið fyrir augun," sagði Rudi Garcia þjálfari Marseille eftir 4-0 tap gegn Monaco í vetur.
Athugasemdir
banner
banner
banner