Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 20. mars 2018 16:30
Magnús Már Einarsson
Kristján G: Tilfinningin er að við séum aðeins á eftir öðrum liðum
Eyjamenn ætla að bæta við sig fyrir mót
Kristján Guðmundsson þjálfari bikarmeistara ÍBV ásamt góðum stuðningsmanni.
Kristján Guðmundsson þjálfari bikarmeistara ÍBV ásamt góðum stuðningsmanni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
Shahab Zahedi Tabar skoraði fjöur mörk í níu leikjum í fyrra.
Shahab Zahedi Tabar skoraði fjöur mörk í níu leikjum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur gengið á ýmsu á undirbúningstímabilinu hjá ÍBV í vetur en samgöngur á milli lands og Eyja hafa verið erfiðar og liðið missti meðal annars af tveimur leikjum í Fótbolta.net af þeim sökum.

„Þetta hefur verið mjög brösótt. Við misstum tvo leiki í þessum æfingamótum," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, við Fótbolta.net í dag.

„Við höfum mikið verið að spila á ungum leikmönnum þar sem að menn eru ekki komnir með leikheimild. Síðan hefur verið svolítið um meiðsli líka. Þetta hefur verið töluvert ólíkt undirbúningstímabilinu í fyrra. Við höfum ekki verið með allt liðið þegar við höfum verið að spila leiki og það er óþægileg tifinning."

„Tilfinningin er að við séum aðeins á eftir öðrum úrvalsdeildarliðum sem geta labbað yfir í næsta hús og spilað æfingaleik ef einhver leikur dettur niður hjá þeim. Það er ekki eins auðvelt fyrir okkur. Tilfinningin er að við séum ekki búnir að slípa liðið eins vel og önnur lið í deildinni. Við þurfum að vinna vel í æfingaferðinni og þessar vikur fram að móti."


Mæta liði sem gerði jafntefli við Newcastle
ÍBV fer til Spánar í æfingaferð á laugardaginn þar sem liðið spilar við belgíska úrvalsdeildarliðið Royal Antwerp og Cartagena sem spilar í spænsku C-deildinni. Antwerp gerði 1-1 jafntefli við Newcastle í æfingaleik í fyrradag.

„Cartagena er í öðru eða þriðja sæti í sínum riðli og þeir eru sterkir líka. Við erum að fá mjög góða leiki þarna," sagði Kristján en Eyjamenn ætla að spila vikulega æfingaleiki í apríl áður en kemur að fyrsta leik í Pepsi-deildinni 28. apríl gegn Breiðabliki.

„Við ætlum að fara upp á land og svo erum við að skoða hvort einhverjir hafi áhuga á að spila við topp aðstæður í Vestmannaeyjum á grasi. Það yrði þá rétt fyrir mót," sagði Kristján um fyrirhugaða æfingaleiki í apríl.

Skoða liðsstyrk í vörn og miðju
Kristján segir að Eyjamenn séu að skoða liðsstyrk í vörnina og á miðjunni.

„Við bætum við allavega einum leikmanni og vonandi tveimur. Við erum í samningaviðræðum við leikmenn og erum að skoða bæði hafsent og miðjumann. Við erum að stefna á að klára málin þannig að viðkomandi leikmaður eða leikmenn nái að hitta okkur úti í æfingaferðinni."

Kristján er ánægður með hvernig hefur gengið hjá bikarmeisturunum á leikmannamarkaðinum í vetur.

„Það hefur gengið vel að fá menn. Við lékum okkur að því að tala við nokkra hákarla sem héldu síðan áfram á höfuðborgarsvæðinu. Markaðurinn hefur breyst undanfarin ár og það er lítið laust á haustin. Liðin eru að halda stórum hópum."

Eyjamenn fengu þrjá unga Íslendinga í sínar raðir síðastliðið haust.
Alfreð Már Hjaltalín kom frá Víkingi Ólafsvík síðastliðið haust og þeir Ágúst Leó Björnsson og Dagur Austmann Hilmarsson komu frá Stjörnunni.

„Það voru flottir strákar sem fluttu til Eyja um áramótin og við erum gríðarlega ánægðir með þá. Þeir eru hluti af þeirri línu sem við erum að reyna að nota hjá ÍBV," sagði Kristján.

Bjartsýnn á að Shahab skori mikið
Shahab Zahedi Tabar, 22 framherji frá Íran, kom til ÍBV í júlí í fyrra og skoraði fjögur mörk í níu leikjum í Pepsi-deildinni. Shahab skoraði bæði gegn Val og Víkingi R. um síðustu helgi og Kristján reiknar með mörkum frá honum í sumar.

„Hann þreifaði aðeins á markaðinum í haust en svo var hann áfram hjá okkur. Hann er byrjaður að skora í deildabikarnum og ég á von á því að hann skori áfram í sumar. Ef að hann hlustar á þjálfarana og gerir réttu hlutina þá gerir hann það," sagði Kristján.
Athugasemdir
banner
banner
banner