banner
   sun 20. apríl 2014 15:00
Daníel Freyr Jónsson
England: Öruggur sigur Arsenal á Hull
Leikmenn Arsenal fagna fyrra marki Podolski.
Leikmenn Arsenal fagna fyrra marki Podolski.
Mynd: Getty Images
Hull City 0 - 3 Arsenal
0-1 Aaron Ramsey ('31 )
0-2 Lukas Podolski ('45 )
0-3 Lukas Podolski ('54 )

Aaron Ramsey sýndi í dag hvers Arsenal hefur saknað síðustu mánuði þegar hann snéri aftur í byrjunarliðið í fyrsta sinn á þessu ári í 3-0 sigri á Hull.

Ramsey átti mjög góðan leik og kom Arsenal yfir eftir 30 mínútur eftir frábært samspil leikmanna liðsins. Þá lagði hann upp annað mark liðsins þegar hann tók vel á móti fyrirgjöf með brjóstkassanum og lagði boltann þar fyrir Lukas Podolski sem þrumaði knettinum í netið.

Heimamenn mótmælu markinu þar sem þeir töldu að brotið hefði verið á Nikica Jelavic skömmu áður, en markið stóð.

Podolski bætti svo við þriðja marki Arsenal snemma í síðari hálfleik og hefði Olivier Giroud getað gert fjórða mark liðsins eftir það, en skot framherjans hafnaði í slánni.

Með sigrinum hefur Arsenal 70 stig í 4. sæti deildarinnar, eða fjórum stigum meira en Everton sem á leik til góða gegn Manchester United í dag. Hull er á sama tíma nokkuð öruggt í í 14. sæti, sex stigum frá falli.
Athugasemdir
banner
banner