Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 20. apríl 2015 17:45
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Kristján Guðmunds: Viljum komast nær peningalyktinni
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er bara eðlileg spá," segir Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur. Hans mönnum er spáð áttunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar. Á föstudaginn komu Keflvíkingar heim úr æfingaferð.

„Ferðin gekk ljómandi vel og allir komu heilir til baka sem er kannski aðalatriðið. Við fórum yfir nýja hluti sem við ætlum að hrinda í framkvæmd í sumar. Það kemur í ljós á fótboltavellinum en snýr að því að reyna að koma liðinu ofar en áttunda sæti, reyna að fjölga stigunum."

„Það er hugmyndin að bæta við einum eða tveimur leikmönnum. En maður þarf að fara varlega og gera það vel þegar maður er að sækja leikmenn, bæði heima og úti. Það er mjög stutt í mótið upp á að vera að sækja leikmenn. Við erum að hugsa um heildarmyndina á liðinu og værum til í að fá örlítið meiri samkeppni og meiri breidd."

Verðum að spýta í lófana
Keflavík hefur endurheimt reynslumikla menn á borð við Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árna Antoníusson. Sá síðarnefndi hefur verið notaður í nokkrum stöðum á undirbúningstímabilinu en Kristján er búinn að ákveða hver hans aðalstaða verður. Við á Fótbolta.net veðjum á miðjuna.

„Það er ákveðið hvar hann verður notaður en það er kannski best að ég og Guðjón afgreiðum það samtal áður en það fer í loftið. Hann hefur verið að spila nokkrar stöður og við verið að skoða hvað er best fyrir liðið að gera," segir Kristján.

„Við byrjuðum undirbúningstímabilið ágætlega en höfum verið að dala seinni hluta Lengjubikarsins. Liðið er ekki alveg tilbúið. Það verður bara að viðurkennast. Við verðum að fara að spýta í lófana."

Diet útgáfa af skosku deildinni
„Markmið okkar er að reyna að koma okkur á efra skiltið og aðeins nær peningalyktinni."

Kristján hefur talað um að ákveðin gjá hafi myndast í íslenska boltanum og stærstu félögin hafi mun meira milli handanna en liðin fyrir neðan.

„Með tilkomu þessara peninga fyrir Evrópusæti er að myndast gjá. Fótboltinn endurspeglar yfirleitt samfélagið og það sem er í gangi þar. Við erum ekkert mjög kát og glöð með það samfélag sem við búum í. Það er mikil misskipting og mér finnst það vera líka í Pepsi-deildinni."

„Ef stærstu félögin halda rétt á sínum spilum sér maður ekki miklar breytingar í vændum hvað varðar liðin sem eru í toppbaráttunni. Við höfum oft hlegið að skosku deildinni en við erum að verða „diet" útgáfa af henni," segir Kristján Guðmundsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner