Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 20. apríl 2017 08:30
Magnús Már Einarsson
Donni: Þarf stórslys til að Valur vinni ekki titilinn
Donni stýrir Þór/KA í ár eftir að hafa þjálfað karlalið Þórs undanfarin tvö ár.
Donni stýrir Þór/KA í ár eftir að hafa þjálfað karlalið Þórs undanfarin tvö ár.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Óvíst er hvenær Sandra María snýr aftur á völlinn.
Óvíst er hvenær Sandra María snýr aftur á völlinn.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Ég get ekki sagt að spáin komi á óvart. ÞórKA hefur verið viðloðandi þetta sæti i langan tíma - en við stefnum á að breyta því til hins betra," segir Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna, en Fótbolti.net spáir liðinu 4. sæti í deildinni í sumar.

Þór/KA endaði í 4. sætinu í fyrra en liðið stefnir ofar í ár.

„Okkar markmið er að fara i alla leiki til að vinna, ef það tekst þá endum við ofarlega. Við ætlum okkur að blanda okkur í baráttuna í sumar, það er ekki spurning."

„Við ætlum að halda áfram að byggja ofan á það góða starf sem hefur verið unnið hér hjá ÞórKA. Það eru margar efnilegar knattspyrnukonur að stíga upp hjá okkur á Akureyri sem við höldum áfram að hugsa vel um og gefa mikilvægt tækifæri. Svo erum við með mörg minni markmið sem við höfum fyrir okkur sjálf sem lið."


Mörg lið hafa styrkt sig í vetur en í huga Donna er eitt lið sem er líklegast til að verða meistari en það er liðið sem hann mætir í fyrstu umferðinni í næstu viku.

„Valur er með yfirburðarlið á pappír og það þarf stórslys til að þær vinni ekki titillinn. En það getur allt gerst i þessu og auðvitað er ÞórKA, Stjarnan og Breiðablik með hörkulið ásamt ÍBV. Þessi lið verða í baráttunni og svo bætast við FH, KR og Grindavik sem gætu komið einhverjum á óvart."

Líkt og í fyrra verða þrjár mexíkóskar landsliðskonur í liði Þórs/KA sem og Zaneta Wyne frá Bandaríkjunum. „Erlendu leikmennirnir okkar verða eðlilega allar í stóru hlutverki annars værum við ekki að fá þær til okkar," sagði Donni.

„Erlendu leikmennirnir okkar bæta gæðin á öllu okkar starfi og lyfta þvi upp á annað stig. Því þær eru ekki bara góðir leikmenn heldur líka mjög góðar fyrirmyndir fyrir alla okkar ungu leikmenn innan og utan vallar."

„Fyrir utan þær og svo Bryndísi Láru þá held ég að við séum eingöngu með stelpur frá Akureyri og nærsveitum i hópnum okkar," bætti Donni við en hann reiknar ekki með frekari liðsstyrk áður en mótið hefst í næstu viku.

Sandra María Jessen sleit fremra krossband í leik með íslenska landsliðinu í síðasta mánuði. Þar sem um fremra krossband er að ræða er ljóst að Sandra getur snúið aftur inn á völlinn í sumar. Eftir meiðslin í byrjun mars sagðist hún sjálf stefna á að snúa aftur eftir þrjá mánuði.

„Það er erfitt að segja hvenær Sandra er væntanleg inná völlinn aftur en hún hugsar vel um sig og er gífurlega dugleg i endurhæfingunni svo mér finnst ekki ólíklegt að við eigum von á henni fyrr en búist var við. Þó tökum við því með fyrirvara og það mun enginn taka neina sénsa með hennar meiðsli, hún kemur bara inn í þetta þegar hún er klár og á réttum forsendum."

„Annars er mjög mikilvægt að allir leikmenn stígi enn frekar upp i hennar fjarveru. Sandra hefur skorað mikið af mörkum fyrir ÞórKA og verið áberandi sóknarlega, svo nú er tækifæri fyrir aðra leikmenn að nýta sénsinn og taka af skarið,"
sagði Donni en hann hefur verið ánægður með undirbúningstímabilið hjá Þór/KA.

„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel. Það hefur verið mikill stígandi í þessu hjá okkur. Margir leikmenn hafa fengið tækifæri sem er frábært og æðislegt hversu margar hafa staðið sig vel og bætt sig sem leikmenn að mínu mati. Við sem lið erum á góðum stað núna og verðum klár á réttum tíma," sagði Donni.
Athugasemdir
banner
banner